Innlent

Opinber fyrirtæki bjóða umsækjendum um forstjórastöður nafnleynd

Magnús Már Guðmundsson skrifar
MYND/Vísir

Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur heita þeim trúnaði sem sækja um forstjórastöður fyrirtækjanna.

Átján sóttu um starf forstjóra Orkuveitunnar en umsóknarfrestur rann út um miðjan ágúst. Hjörleifur Kvaran hefur starfað sem forstjóri frá því að Guðmundur Þóroddsson tók sér leyfi til að stýra Reykjavík Energy Invest. Í maí tók stjórn Orkuveitunnar þá ákvörðun að víkja Guðmundi úr starfi.

Staða forstjóra Landsvirkjunar var auglýst til umsóknar um helgina en Friðrik Sophusson hefur ákveðið að láta af störfum sem forstjóri fyrirtækisins.

Í báðum tilfellum kemur fram í auglýsingu að farið verði með allar umsóknir sem trúnaðarmál.

Upplýsingalög kveða skýrt á um að skylt er að veita upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn. Lögin ná aftur á móti ekki til Orkuveitunnar né Landsvirkjunar og því er þeim í sjálfsvald sett hvort þau greini frá hverjir sækja um stöðurnar.

Orkuveitan er í sameignareigu þriggja sveitarfélaga en lögin ná ekki til sameignarfélaga. Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi Orkuveitunnar, segir að stjórn fyrirtæksins hafi ákveðið að fara þessa leið í þetta sinn.

Það sama segir Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar. ,,Landsvirkjun er ekki stjórnsýsluaparat eða stofnun heldur sjálfstætt starfandi atvinnufyrirtæki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×