Innlent

Slökkviliðið aftur í mál við Hringrás vegna bruna

Frá aðgerðum í Hringrásarbrunanum.
Frá aðgerðum í Hringrásarbrunanum. MYND/GVA

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að höfða nýtt dómsmál á hendur endurvinnslufyrirtækinu Hringrás vegna tjóns sem varð í bruna á athafnassvæði fyrirtækisins fyrir um fjórum árum.

Hæstiréttur hafnaði fyrr á þessu ári kröfu slökkviliðsins á hendur Hringrás vegna brunans. Slökkvilið krafði fyrirtækið um rúmar 25,6 milljónir króna sem var sá kostnaður sem slökkviliðið greiddi fyrirtækinu E.T. Það fyrirtæki aðstoðaði við að slökkva í dekkjahrúgunni á athafnasvæði Hringrásar og skemmdust vinnuvélar þess af þeim sökum.

Vátryggingafélag Hringrásar hafnaði bótakröfunni þar sem dekkjahrúgan var ótryggð og fór málið fyrir dómstóla. Bæði héraðsdómur og Hæstiréttur höfnuðu kröfu slökkviliðsins, meðal annars á þeim grundvelli að kröfuna hefði brostið lagagrundvöll eins og hún var fram sett.

Öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga aðild að stjórn slökkviliðsins og á fundi í maí var Jóni Viðari Matthíassyni slökkviliðstjóra falið að senda umhverfisráðherra og umhverfisnefnd bréf vegna dómsins með tillögum að breytingu á lögum um brunavarnir til að tryggja að sveitarfélög verði ekki fyrir fjártjóni vegna ráðstafana slökkviliðs við björgunaraðgerðir í eldsvoða og mengunaróhöppum.

Stjórn slökkviliðsins fundaði svo aftur í síðustu viku til þess að fara yfir dóm Hæstaréttar. Var samþykkt á fundinum að veita lögmanni slökkviliðsins umboð til að höfða nýtt dómsmál á hendur Hringrás vegna tjónsins sem slökkviliðið greiddi E.T.


Tengdar fréttir

Skoða möguleika á frekari málshöfðun á hendur Hringrás

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins skoðar nú möguleikann á frekari málshöfðun á hendur endurvinnslufyrirtækinu Hringrás vegna bruna á athafnasvæðis fyrirtækisins fyrir um fjórum árum. Þá vill slökkviliðið að brunavarnalögum verði breytt þannig að skýrt verði kveðið á um ábyrgð aðila í brunum sem þessum.

Slökkvilið tapar Hringrásarmáli í Hæstarétti

Hæstiréttur staðfesti í dag sýknudóm í máli slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins á hendur endurvinnslufyrirtækinu Hringrás vegna mikils bruna á athafnasvæði Hringrásar í nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×