Erlent

Breska lögreglan fær 10.000 stuðbyssur

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Daily Mail

Lögreglan í Bretlandi tekur von bráðar í notkun tíu þúsund rafstuðbyssur. Það er óhætt að segja að þeir verði í stuði, lögregluþjónarnir 30.000 í 43 lögregluumdæmum Bretlands sem fá innan tíðar í hendur rafstuðbyssur til að beita gegn hættulegum eða vopnuðum brotamönnum framtíðarinnar.

Innanríkisráðherrann Jacqui Smith mun í dag kynna áætlunina sem gengur út á að verja átta milljónum punda, jafnvirði tæplega 1,7 milljarða króna, til kaupa á 10.000 slíkum vopnum sem hafa verið umdeild, meðal annars hér á landi, vegna hugsanlegra lífshættulegra eiginleika sem sum mannréttindasamtök láta í veðri vaka að tækin búi yfir.

Framleiðendur og lögregluyfirvöld vilja þó meina að þau 50.000 volt, sem skotmark rafstuðbyssu verður fyrir, séu alla jafna skaðlaus en nægi þó til að lama alla vöðvastarfsemi á meðan viðkomandi er settur í járn.

Innanríkisráðherrann segist vera stolt af því að breska lögreglan sé eitt fárra lögregluliða heimsins sem gangi ekki með byssur á sér nema í sérstökum aðgerðum og þannig vilji hún halda því. Landssamband lögreglumanna í Bretlandi fagnar þessum nýja útbúnaði og talsmaður þess segir rafstuðbyssurnar vera lausn sem feli í sér hættulitla leið til að fást við aðstæður þar sem lögreglumönnum sé hætta búin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×