Innlent

Algjör einhugur í hópi ljósmæðra

Algjör einhugur er meðal ljósmæðra í kjarabaráttu þeirra að sögn Guðlaugar Einarsdóttur, formanns Ljósmæðrafélags Íslands, sem klukkan eitt í dag fundar með samninganefnd ríkisins um nýjan kjarasamning.

Vísir náði tali af Guðlaugu þar sem hún var að undirbúa samningafundinn. Aðspurð um stemmninguna í samningahópi ljósmæðra segir Guðlaug að hún sé afslöppuð og að þær fari í viðræðurnar með opnum huga. Ljósmæður hafi komið með margar hugmyndir að leiðum að sama markmiði, það er að leiðrétta kjör stéttarinnar.

Ljósmæður efndu til tveggja sólarhringa verkfalls í síðustu viku og annað slíkt hefst á miðnætti á miðvikudag hafi ekki samist fyrir þann tíma. Aðspurð um andann meðal ljósmæðra segir Guðlaug að algjör einhugur sé í hópnum, „Þetta er kjarabarátta sem við höfum staðið í svo árum skiptir og við erum búnar að fara í gegnum nokkra kjarasamninga til þess að fá okkar kjör leiðrétt. Nú er komið að algjörum vendipunkti og óljóst hvernig við mönnum stéttina á næstu árum ef við fáum launin ekki leiðrétt," segir Guðlaug.

Ljósmæðrum hafa borist stuðningsyfirlýsingar víðs vegar að úr samfélaginu á síðustu dögum. Aðspurð segir Guðlaug stuðninginn hafa mikla þýðingu fyrir ljósmæður. „Við erum þakklátar fyrir stuðninginn og hann gefur okkur staðfestu til að halda áfram," segir Guðlaug.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×