Íslenski boltinn

Leifur: Fylkir ekki verr statt en önnur félög

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkis.
Leifur Garðarsson, þjálfari Fylkis. Mynd/E. Stefán

Leifur Garðarsson blæs á allar sögusagnir og fréttaflutning um að Fylkir eigi í miklum fjárhagsvandræðum og að leikmenn fái ekki laun sín að fullu greidd.

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var fullyrt að mikillar óánægju gætir meðal leikmanna Fylkis þar sem þeir hafi ekki fengið laun sín greidd að fullu. Því var haldið fram að erlendir leikmenn fengu 75 prósent sinna launa greidd og íslenskir leikmenn helming.

Í Fréttablaðinu í dag var haft eftir bæði Kristjáni Valdimarssyni og Ian Jeffs að þeir hafi fengið laun sín greidd. Kristján sagði að það væri ekki búið að lækka laun hjá neinum leikmanni.

Leifur, sem er þjálfari Fylkis, segir að það sé einfaldlega rangt að Fylkir eigi í fjárhagsvandræðum.

„Það er ekkert vandamál í gangi," sagði Leifur og vildi ekki meina að ástandið væri sérstaklega slæmt hjá Fylki. „Eru ekki öll félög í landinu í peningavandræðum miðað við það ástand sem ríkir í þjóðfélaginu? Það eiga allir í meiri fjárhagsvandræðum nú en áður. Fylkir er enn sem fyrr þekkt fyrir það að standa við sína samninga og vaða ekki í villu í fjárfestingum sem félagið hefur ekki efni á."

Fylkir tapaði fyrsta leik sínum á tímabilinu, fyrir Fram á heimavelli á laugardaginn, 3-0. Leifur segir að öll umræða um fjármál félagsins eigi ekki að skila sér inn á völlinn.

„Menn eiga að vera það miklir atvinnumenn í hugsunarhætti að þeir eiga að leiða allt slíkt hjá sér. Það þýðir ekkert að afsaka hörmulega frammistöðu um síðustu helgi með slíku."

Annars líst honum vel á framhaldið en Fylkir mætir Keflavík á útivelli annað kvöld. „Leikurinn leggst vel í mig og ég er fullur tilhlökkunnar. Ég óttast ekki Keflvíkinga frekar en önnur lið enda geta allir unnið alla í þessari deild," sagði Leifur en Keflvíkingar gerðu sér lítið fyrir og unnu Íslandsmeistara Vals um helgina með fimm mörkum gegn þremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×