Innlent

Kvótalausi sjómaðurinn kominn með lögfræðing í málið

Ásmundur Jóhannsson.
Ásmundur Jóhannsson.

Ásmundur Jóhannsson, útgerðarmaður í Sandgerði, hefur ekki enn tekið ákvörðun um hvort hann fari aftur út til veiða. „Ég get ekki svarað því alveg strax. Ég þarf að hafa samband við lögfræðing en fæ úr þessu skorið í hádeginu," segir hann.

Landhelgisgæslan hafði afskipti af Ásmundi í gær þar sem hann var að veiðum við Reykjaneshrygg á kvótalausum bát. Ásmundur á yfir höfði sér kæru fyrir athæfið. Hann segist hafa leitað til Lúðvíks Kaaber héraðsdómslögmanns. Lúðvík hefur áður sótt mál fyrir Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna fyrir menn sem dæmdir höfðu verið fyrir ólöglegar veiðar á Íslandi. Úrskurður Mannréttindanefndarinnar féll mönnunum í hag, eins og þekkt er.

Ásmundur segir að enginn opinber starfsmaður hafi haft afskipti af sér frá því að hann kom í land í gær. „Ég bjóst við að fá kæru í gær, en þeir eru ekki enn búnir að kæra mig," segir Ásmundur. Hann virtist litlar áhyggjur hafa þegar Vísir hafði samband við hann. „Ég er að drekka kaffi núna eins og er," segir Ásmundur pollrólegur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×