Innlent

Allt í hnút hjá læknum

Fundi er lokið í Karphúsinu þar sem læknar og fulltrúar ríkisins reyndu að komast til botns í samningaviðræðum. Fundurinn var árangurslaus og formaður samninganefndar lækna segir að verið sé að ýta læknum út í aðgerðir sem þeir hefðu viljað komast hjá.

„Það slitnaði upp úr þessum viðræðum," segir Gunnar Ármannsson, formaður samninganefndar lækna. „Framhaldið er það að læknar fá greinilega engan samning án þess að grípa til aðgerða. Það er því verið að ýta læknum út í aðgerðir sem þeir hefðu gjarnan viljað sleppa við."

Ríkið lagði fram tilboð sem Gunnar segir að hafi hljóðað upp á umþaðbil sex prósenta launahækkun. „Það tilboð hefði einnig haft í för með sér sölu á réttindum. Við komum með gagntilboð sem hefði þýtt 9,5 prósent hækkun," segir Gunnar en ríkið hafnaði því og var ekki tilbúið til þess að koma með annað gagntilboð. „Og þarmeð var þessu sjálfhætt.

Næsti fundur í deilunni hefur verið ákveðinn fyrsta október, en þá mun aðalfundur læknafélagsins vera yfirstaðinn. „Eftir aðalfundinn mun það væntanlega skýrast til hvaða aðgerða við munum grípa," segir Gunnar Ármannsson.

 

 

 

 

 

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×