Lífið

Íslensk börn safna milljónum fyrir UNICEF

Íþróttaálfurinn ræsti Latabæjarhlaupið í fyrra.
Íþróttaálfurinn ræsti Latabæjarhlaupið í fyrra.
Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, segir stuðning íslenskra barna við jafnaldra sína sem búa við sára neyð úti í heimi afar kærkominn. Á síðasta ári söfnuðust á fjórðu milljón króna í Latabæjarhlaupinu, sem er haldið í tengslum við Reykjavíkurmaraþon Glitnis.

Í fyrra tóku um 4300 börn þátt í hlaupinu sem ætlað er 9 ára börnum og yngri og búist er við að þátttakan geti orðið jafn góð eða betri í ár. Þátttökugjald er það sama og á síðasta ári eða 800 kr. og rennur óskipt til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF. Hægt verður að heita á þátttakendur í Latabæjarhlaupinu eins og þá sem taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni Glitnis og auka þannig enn við stuðninginn við UNICEF.

UNICEF á Íslandi hefur aðallega beint kröftum sínum að uppbyggingu í þeim ríkjum í Vestur-Afríku þar sem þörfin er mest. „Framlag íslensku hlauparanna verður m.a. nýtt til að byggja upp grunnheilsugæslu og tryggja aðgang að vatni og menntun á þessum svæðum, en þessi verkefni geta breytt lífi barna um allan heim sem líða skort vegna fátæktar, náttúruhamfara eða stríðsátaka," segir Stefán Ingi í fréttatilkynningu sem Glitnir sendi frá sér.

Latabæjarhlaup Glitnis fer fram á svæðinu framan við aðalbyggingu Háskóla Íslands og er hlaupavegalengdin um það bil einn kílómetri. Íþróttaálfurinn mun ræsa keppendur eftir góða upphitun fyrir hlaup og að hlaupi loknu verður fjölbreytt barnaskemmtun á svæðinu. Hlaupið hefst næstkomandi laugardag klukkan eitt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.