Erlent

Afríkuleiðtogar taka saman höndum

Robert Mugabe, forseti Simbabve.
Robert Mugabe, forseti Simbabve.

Leiðtogar ríkja í sunnanverðri Afríku hafa ákveðið að taka saman höndum og bjarga Simbabve frá efnahagshruni og hörmungum kólerufaraldurs sem geisar í landinu.

Nærri þúsund Simbabvebúar hafa látist af völdum kólerufaraldursins sem Robert Mugabe, forseti Simbabve, segir að búið sé að komast fyrir. Mörg hundruð íbúar munu hafa sýkst. Þar fyrir utan er efnahagur landsins í molum. Verðbólga er rúmlega tvö hundruð milljón prósent og atvinnuleysi mælist áttatíu og fimm prósent. Engin þjóðstjórn hefur verið mynduð þó Mugabe hafi samið við stjórnarandstöðuna um það í haust.

Fólk hefur flúið land í stórum hópum og leitað aðstoðar yfir landamærin til nágrannaríkjanna. Nú óttast ráðamenn þar að með fóttafólkinu komi kóleran.

Samningamönnum frá ríkjum í sunnanverðir Afríku hefur ekki tekist að hjálpa til við að flýta myndun þjóðstjórnarinnar en erfiðlega hefur gengið fyrir stríðandi fylkingar að skipta á milli sín ráðuneytum.

Kgalema Motlanthe, forseti Suður-Afríku, sagði í morgun að nágannaríki Simbabve ætluðu að grípa til aðgerða til að tryggja mannúðaraðstoð í landinu til handa bágstöddum og sjúkum. Bjarga þurfi landinu frá efnahagslegu hruni og koma í veg fyrir fleiri dauðsföll af völdum kóleru. Montlanthe sagðist vona að hægt yrði að mynda þjóðstjórn í þessari viku. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Simbabve eru ekki jafn bjartsýnir.

Motlanthe segir leiðtoga ríkjanna ekki rætt um að Mugabe verði gert að víkja. Samkvæmt þjóðstjórnarsamkomulaginu veðri hann áfram forseti og Morgan Tsvangirai, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, forsætisráðherra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×