Skoðun

Vísvitandi misskilningur

Að undanförnu hef ég átt í undarlegum ritdeilum. Í grein benti ég á svik núverandi stjórnarflokka um að efla og styrkja RÚV ohf. Þorgrímur Gestsson, formaður Hollvinasamtaka RÚV, sá þá ástæðu til að benda á, í grein sem bar heitið „Svikin við RÚV og svikararnir", að Framsóknarflokkurinn hefði samþykkt að gera RÚV að opinberu hlutafélagi og þannig væri núverandi vandi útvarpsins til kominn. Þessum fullyrðingum svaraði ég í annarri grein þar sem ég benti á að rekstrarformið hefði ekkert með það að gera að Sjálfstæðisflokkur og Samfylkingin stæðu fyrir niðurskurði á fjármagni til RÚV.

Í annarri svargrein sinni sakar Þorgrímur mig um að misskilja hann vísvitandi og að vitna ranglega í grein hans. Til upplýsinga þá vitna ég aldrei orðrétt í grein hans en fullyrði að hann kenni rekstrarforminu um þann vanda sem útvarpsstöðin á í. Við þessi orð mín stend ég og misskil hann ekki á nokkurn hátt. Þorgrímur segir nefnilega í greininni, báðum reyndar, að „allt væri komið fram sem Hollvinir RÚV og fleiri sögðu þegar þeir vöruðu við hlutafélagavæðingunni; þar var einfaldlega átt við þann niðurskurð og samdrátt, sem nú er að koma á daginn".

Þorgrímur fullyrðir í grein sinni að hollvinirnir hafi séð þetta fyrir. Hvernig má það vera? Er Sjálfstæðisflokkurinn svo fyrirsjáanlegur að um leið og hann fær tækifæri til svíkur hann sín loforð um eflingu RÚV? Og er Samfylkingin það mikill taglhnýtingur að hún lyppast niður í öllum málum sem snúa að ráðuneytum sjálfstæðismanna? Þótt ég telji að svo sé þá er það staðreynd að ef stjórnarflokkarnir hefðu staðið við þjónustusamning við Ríkisútvarpið og þannig tryggt útvarpinu nægt fjármagn hefði aldrei þurft að koma til uppsagna og niðurskurðar. Þá hefði spádómur Hollvina RÚV heldur ekki ræst.

Niðurskurður og samdráttur eru ekki fylgifiskar þess að breyta RÚV í opinbert hlutafélag þótt annað form kunni að vera heppilegra. Það sem eftir stendur er hins vegar spurningin um hvað Þorgrími gangi til með greinarskrifum sínum. Hefði tíma hans sem formanni Hollvinasamtaka RÚV ekki verið betur varið í að fá svör frá núverandi stjórnarflokkum af hverju verið sé að þjarma að RÚV? Eða eru skrif hans vísvitandi misskilningur?

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Sjá meira


×