Innlent

„Voru eitt sólskinsbros“

Hluti hópsins á Keflavíkurflugvelli í gærkvöld.
Hluti hópsins á Keflavíkurflugvelli í gærkvöld. MYND/Anton Brink

Palestínsku flóttamennirnir sem hingað komu í nótt voru furðuvel á sig komnir þrátt fyrir erfitt ferðalag frá Írak að sögn Lindu Bjarkar Guðrúnardóttur, verkefnisstjóra móttökunnar.

Vísir náði tali af Lindu Björk í morgun en hún var í hópi þeirra sem fylgdu flóttamönnunum til landsins síðasta spölinn, frá Heathrow-flugvelli. Aðspurð sagði hún hópinn hafa verið mjög þreyttan eftir langt ferðalag. „Þau voru þó furðuvel á sig komin þegar við hittum þau á Heathrow og voru eitt sólskinsbros og full eftirvæntingar," segir Linda Björk.

Aðspurð hvað bíði flóttamannanna 29 í dag segir Linda Björk að aðstandendur móttökunnar muni hitta hópinn seinni partinn og aðstoða fólkið við að fylla út umsóknir vegna dvalarleyfis og þess háttar. Þá fari hópurinn í heilsufarsskoðun. „Síðan eftir um tíu daga byrjar það að byggja upp rútínu, yngstu börnin fara í aðlögun á leikskóla og þau eldri fara í íslenskukennslu í grunnskólanum. Mæðurnar fara svo í íslenskukennslu og samfélagsfræðslu," segir Linda Björk.

Fólkið býr allt á svokölluðum Neðri-Skaga á Akranesi og að sögn Lindu Bjarkar nærri grunnskólanum. Tiltölulega stutt sé á milli íbúða þeirra og henni hafi heyrst á fjölskyldunum að þær væru ánægðar með það.

Það kom í hlut stuðningsfjölskyldna palestínsku fjölskyldnanna að undirbúa íbúðir þeirra og í nótt þegar hópurinn kom á Akranes tóku stuðningsfjölskyldurnar á móti þeim og buðu þau velkomin. Rauði krossinn á Akranesi standsetti íbúðir flóttamannanna og að sögn Lindu Bjarkar hafa stuðningsfjölskyldurnar undirbúið sig af kappi undanförnu. „Þau hafa verið í hörkuvinnu í langan tíma," segir Linda Björk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×