Innlent

Hefði viljað sjá skýrari Evrópustefnu

Össur Skaphéðinsson, iðnaðarráðherra.
Össur Skaphéðinsson, iðnaðarráðherra.

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, segist hafa vonast eftir því að Sjálfstæðisflokkurinn myndi boða skýrari stefnu í Evrópumálum í dag. Aftur á móti sé ákvörðun flokksins sem tilkynnt var um áðan skref í rétta átt.

Á fundi með blaðamönnum í Valhöll tilkynntu Geir H. Haarde og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir að miðstjórn flokksins hefur ákveðið að flýta landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem halda átti í október á næsta ári, og verður hann í lok janúar. Þá var tilkynnt að skipuð hefur verið nefnd um Evrópumál og mun hún skila af sér skýrslu sem tekin verður fyrir á landsfundinum.

Össur segir að það séu jákvæð tíðindi að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ákveðið að taka Evrópumálin náið til skoðunar.

,,Ég vona heitt og innilega að þeir taki óhikað upp merki þeirra sem vilja stefna á inngöngu í Evrópusambandið. Það væri ekki aðeins farsælt fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem flokk heldur má heita að þjóðin öll bíði nánast eftir því að hinn stjórnarflokkurinn taki málið upp með fordómalausum hætti og freisti þess að byggja upp nýja framtíð fyrir Ísland innan Evrópusambandins."








Tengdar fréttir

Landsfundi sjálfstæðismanna flýtt og nefnd um Evrópumál skipuð

Ákveðið hefur verið að flýta landsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem halda átti í október á næsta ári, og verður hann í lok janúar. Þá hefur verið ákveðið að skipa nefnd um Evrópumál. Þetta kom fram í máli Geirs H. Haarde forsætisráðherra á blaðamannafundi í Valhöll en þar fer fram miðstjórnarfundur vegna efnahagsástandsins.

Samfylkingin getur ekki beðið út kjörtímabilið

,,Samfylkingin getur ekki beðið út kjörtímabilið án þess að tekin verði skref í átt að Evrópusambandinu. Við höfum einfaldlega ekki tímann því hann vinnur ekki með okkur," segir Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar. ,,Framtíðarsýnin verður að vera skýr."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×