Innlent

Íslenskir neytendur ekki vel á verði

Frá ráðstefnu um neytendamál í morgun.
Frá ráðstefnu um neytendamál í morgun. MYND/Stöð 2

Íslenskir neytetndur fylgjast ekki vel með verðbreytingum á matvöru og eru illa að sér í verðlagi mismunandi símafyrirtækja, orkusölufyrirtækja, tryggingafélaga og banka. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir viðskiptaráðuneytið og var kynnt á ráðstefnu um stöðu neytendamála á Íslandi í morgun.

Meðal annarra niðurstaðna í skýrslunni er að íslenskir neytendur leitist við að versla þar sem verðið sé lægst en fæstir telja auglýsingar um tilboð hafa áhrif á það hvar þeir gera innkaup sín. Þá skipuleggur innan við helmingur neytenda matarinnkaup sín með því að skrifa innkaupalista en tekjulágir gera það í meira mæli en tekjuháir.

Þá athuga fæstir neytendur næringarinnihald vara sem þeir kaupa en þeir skoða hvort galli er á vöru áður en þeir kaupa hana. Enn fremur telja neytendur sig hvorki eyða um efni fram né eru þeir gjarnir á að setja hluti á raðgreiðslur hafi þeir ekki efni á þeim. Þessar niðurstöður eru á skjön við opinberar tölur eftir því sem segir í skýrslunni.

Þá segir einnig í skýrslunni að þörf sé á fleiri rannsóknum í neytendamálum á Íslandi. Rannsóknir þurfi að vera leiðandi fyrir bæði stjórnvöld og neytendur. Skýrsluhöfundar segja enn fremur mikla þörf á neytendafræðslu á öllum stigum, bæði innan skólakerfisins og fyrir almenning. Einnig þurfi að sporna gegn vaxandi ofþyngd íslenskra neytenda og ein leið til þess sé að taka merkingar matvæla til endurskoðunar.

Þá segir í skýrslu Félagsvísindastofnunar að skoða þurfi siðræn kaup íslenskra neytenda, en margt bendi til að íslenskir neytendur séu ekki eins uppteknir af dýravernd, vinnuaðstæðum framleiðenda og umhverfisvernd og neytendur annar staðar á Norðurlöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×