Erlent

Liz McCartney hetja ársins hjá CNN

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Liz McCartney, hetja ársins 2008 að mati CNN.
Liz McCartney, hetja ársins 2008 að mati CNN. MYND/Michael Caulfield/Wireimage.com

Liz McCartney hefur verið kosin hetja ársins 2008 af bandarísku sjónvarpsstöðinni CNN. Nafnbótina hlýtur hún fyrir ósérhlífni sína og aðstoð við fórnarlömb fellibylsins Katrínar sem gekk yfir Mississippi, Louisiana og fleiri ríki Bandaríkjanna í ágúst árið 2005. Katrín er einn af fimm mannskæðustu fellibyljunum sem dunið hafa á Bandaríkjunum og kostaði um 500 manns lífið auk þess sem stórtjón varð á 144 ferkílómetra svæði, mest í borginni New Orleans.

 

McCartney hlýtur 100.000 dollara í verðlaunafé en yfir milljón manns tóku þátt í vali hetju ársins á vef CNN sem hægt var að kjósa í sex vikur. „Takið þátt í starfinu með okkur. Ég biðla til þjóðarinnar og heimsbyggðarinnar allrar," sagði McCartney í ávarpi þegar hún veitti verðlaununum viðtöku. „Í sameiningu getum við lyft grettistaki og byggt upp heimili fólksins og líf þess."

 

Meðal þeirra tíu sem flest atkvæði hlutu í kjörinu var Carolyn LeCroy, fyrrverandi fangi sem lagt hefur á sig gríðarmikla vinnu við að færa börnum fanga skilaboð frá því foreldri þeirra sem situr í fangelsi. Hefur LeCroy hljóðritað skilaboð frá meira en 3.000 föngum í Bandaríkjunum og komið til barna þeirra.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×