Innlent

240 sagt upp hjá Icelandair

MYND/Anton

Starfsmönnum Icelandair verður fækkað í heild um 240 í viðamiklum aðgerðum félagsins sem miða að því að endurskipuleggja rekstur þess og bregðast við breyttu rekstrarumhverfi vegna hækkandi eldsneytisverðs og óvissu í efnahagsmálum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Aðgerðirnar fela í sér samdrátt í vetraráætlun fyrirtækisins, fækkun starfsfólks, skipulagsbreytingar, fækkun í stjórnendahópi og eldsneytissparandi aðgerðir í flugi. Þannig mun félagið lengja vetrarhlé í flugi til og frá Minneapolis og heilsársflugi til Toronto og Berlín er frestað. Flug til og frá Toronto í Kanada hófst í vor og mun halda áfram vorið 2009 eftir vetrarhlé. Fleiri breytingar hafa verið gerðar á vetraráætlun félagsins, meðal annars verður dregið úr flugi til Parísar en flug aukið til New York. Einnig verða felld út einstök flug á nokkrum leiðum.

64 flugmönnum og 138 flugfreyjum sagt upp

Þessar breytingar nema um 14 prósent samdrætti milli vetraráætlana, segja flugleiðir. Þessar breytingar þýða að fækka þarf starfsmönnum og er gert ráð fyrir að stöðugildi hjá Icelandair muni fækka um 190, úr um 1230 á síðasta vetri í 1040 í vetur. Vegna þess að sumir eru í hlutastörfum mun starfsfólki í heild fækka um 240 einstaklinga. Þar af fá rúmlega 200 uppsagnarbréf fyrir lok júnímánaðar, 64 flugmenn og 138 flugfreyjur, en einnig fækkar starfsmönnum á tæknisviði, flugumsjónarmönnum og starfsmönnum á söluskrifstofum félagsins, að hluta með uppsögnum og að hluta með því að ekki er ráðið í störf sem losna. Boðið er upp á ráðgjöf og aðstoð fyrir þá sem missa atvinnuna.

„Það er erfitt að sjá að baki góðum samstarfsmönnum og vinum og frábæru starfsfólki. Icelandair hefur í harðri samkeppni byggt árangur sinn á þekkingu og samheldni starfsfólksins. Fyrir vikið erum við í fremstu röð alþjóðlegra flugfélaga og höfum mjög sterka stöðu hér á Íslandi. Þegar móti blæs í rekstrinum reynir á þetta sem aldrei fyrr. Ég treysti því að þekking og reynsla starfsmanna og sá samtakavilji sem hefur alla tíð verið undirstaða Icelandair verði mesti styrkur þess nú. Ég óska því góða fólki sem fer frá okkur nú alls hins besta", segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair.

Reyna að ná fram eldsneytissparnaði

Þá hafa verið gerðarskipulagsbreytingar sem miða að því að einfalda ferla og draga úr kostnaði. Lagðar hafa verið niður deildir og þær sameinaðar öðrum í höfuðstöðvum hér á landi og á skrifstofum félagsins erlendis. Þá hefur millistjórnendum verið fækkað og sem dæmi má nefna að forstöðumönnum innan Icelandair hefur verið fækkað úr fimmtán í sjö.

„Þá hefur verið hrint í framkvæmd margháttuðum aðgerðum til að ná fram eldsneytissparnaði í flugi félagsins, til þess að draga úr áhrifum hækkandi eldneytisverði. Átak er gert til þess að létta flugvélarnar eins og unnt er með nákvæmari hleðslu, og sparnaði er náð fram með því að draga úr hraða og breyta vinnuaðferðum við aðflug," segir í tilkynningu Icelandair.

Öll félög Icelandair Group að bregðast við breyttum aðstæðum

Icelandair er eitt af tólf dótturfyrirtækjum Icelandair Group og eru öll fyrirtækin að bregðast við breytingum í rekstrarumhverfi flug- og ferðaþjónustu hvert með sínum hætti. „Fyrirtækin innan Icelandair Group eru að bregðast við breytingum í umhverfi sínu á margvíslegan hátt. Önnur flugfélög innan samstæðunnar, svo sem Flugfélag Íslands, Bluebird Cargo, Latcharter í Lettlandi og Tavel Service í Tékklandi, eru ólík og sum eru ekki háð þróun eldsneytisverðs með sama hætti og Icelandair.

En önnur fyrirtæki innan Icelandair Group, eins og IGS á Keflavíkurflugvelli finna fyrir þessum breytingum og þar fækkar fólki í haust umfram venjulega árstíðabreytingu um 75 stöðugildi. Öll fyrirtækin í Icelandair Group, sem samtals hafa um 3500 starfsmenn um allan heim, leggja áherslu á kostnaðaraðhald og sveigjanleika við núverandi aðstæður", segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.