Erlent

Sveitarfélög á Bretlandi bjartsýn á að fá greitt út úr bönkunum

Landsbankinn í London.
Landsbankinn í London.

Ernst&Young, skiptastjórar í Landsbanka og Kaupþingi á Bretlandi, hafa gefið Sambandi sveitarfélaga á Bretlandi góðar vonir um að kröfur á Landsbankann og Kaupþing fáist greiddar. E&Y hafa farið með þrotabú bankanna á Bretlandi og óskaði sambandið eftir því viðræðum við þá í ljósi þess að sveitarfélög víðs vegar um Bretland geymdu fúlgur fjár í bönkunum. Upphæðin sem sveitarfélögin voru með í íslensku bönkunum nemur rúmlega 858 milljónum punda.

Formaður sambandsins, Margaret Eaton, segir að viðræður við Ernst & Young hafi verið mjög upplífgandi, enda væru allar líkur á því að bókfærðar eignir bankanna dugi fyrir ábyrgðum.

Sambandið krafðist þess einnig formlega í dag að fjármálaeftirlitið í Bretlandi kanni hvernig það gat gerst, að íslensku bankarnir skuli hafa verið metnir svo jákvætt af matsfyrirtækjum, allt þar til þeir fóru á hliðina. Sambandið sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem greint er frá því að 116 sveitarfélög hafi verið með fé bundið í íslensku bönkunum að fjárhæð rúmlega 858 milljónum punda.

Þá er því beint til þeirra sveitarfélaga sem héldu áfram að eiga viðskipti við bankana eftir 30. september þegar matsfyrirtækin lækkuðu bankana að viðkomandi sveitarstnórnir kanni hvernig á því stóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×