Innlent

Forsætisráðherra ræddi „ekkert sérstakt“ á fundi með Björgólfi

MYND/Stöð 2
„Það er ekkert sérstakt sem þar gekk á," sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra aðspurður um fund hans með Björgólfi Thor Björgólfssyni og bankastjórum Landsbankans í gærkvöld. Davíð Oddsson seðlabankastjóri kom á fund ríkisstjórnarinnar í morgun.

Fjölmiðlar landsins fjölmenntu í Stjórnarráðið í morgun til þess að inna ráðherra eftir tíðindum eftir að Fréttablaðið greindi frá því að Landsbankamenn hefðu fundað með forsætisráðherra í gærkvöld.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund að ekkert sérstakt hefði farið fram á fundinum. „Ég nota gjarnan tækifærið og spjalla við Björgólf Thor þegar hann er á landinu," sagði Geir og bætti við að það væri ekkert óeðlilegt við það miðað við breytingar á markaði. Hann hefði í morgun átt samtal við forráðamenn allra íslensku bankanna í síma. „Það er bara hluti af því sem ég þarf að gera í minni vinnu," sagði forsætisráðherra.

Aðspurður hvort áhugi væri hjá forsvarsmönnum Landsbankans að koma inn í Glitnissamninginn sagðist Geir ekki getað svarað því, forsvarsmenn Landsbankans yrðu að gera það. „Það liggur fyrir að það hefur verið ákveðinn áhugi á því að sameina hér bankastofnanir," sagði Geir og vísaði meðal annars í samruna SPRON og Kaupþings. Þá hefði verið talað um samstarf Landsbankans og Glitnis og auðvitað væri æskilegast að frumkvæði um það kæmi frá markaðnum sjálfum.

Ég þarf að tala við fjármálaheiminn

Geir vildi ekki greina frá efni fundar síns við Björgólf Thor að öðru leyti en því að þeir hefðu rætt stöðuna í bankaheiminum. Þá sagði hann enga aðra fundi fyrirhugaða en þeir gætu þó brostið á með stuttum fyrirvara. „Ég þarf á því að halda að tala við fjármálaheiminn eins og staðan er. Það vita allir að ástandið er mjög ótryggt í alþjóðlegum fjármálaviðskiptum," sagði Geir. Ákveðið uppnám hefði orðið eftir að Bandaríkjaþing hafnaði björgunarpakkanum svokallaða í gær og var það að mati Geir „fullkomið ábyrgðarleysi" af hálfu þingsins.

Björgvin G. Sigurðsson viðskipta- og bankamálaráðherra var einnig á ríkisstjórnarfundi í morgun og hann sagði sameiningu Landsbankans og Glitnis ekki hafa verið rædda. „Við stöndum bara frammi fyrir því sem gerðist í gær og fyrradag. Glitnir er nú í eigu ríkisins og við vinnum út frá þeirri stöðu," sagði Björgvin. Engir formlegir fundir hefðu verið haldnir á vegum ríkisstjórnarinnar um sameiningu bankanna og taldi Björgvin hana óraunhæfa á þessu stigi.

Þá lýsti hann einnig yfir áhyggjum af viðbrögðum bandaríkjaþings við björgunaraðgerðapakka stjórnvalda í Bandaríkjunum.

„Ég sá það bara í blöðunum"

Davíð Oddsson seðlabankastjóri kom á fund ríkisstjórnarinnar í morgun. Aðspurður sagðist hann hafa farið yfir stöðuna eins og hún hefði verið. Hann sagði enn fremur að fundur forsætisráðherra og Landsbankamanna hefði ekki verið á hans vegum. „Ég sá það bara í blöðunum," sagði Davíð.

Davíð var einnig spurður út í fullyrðingar forsvarsmanna Stoða um að Glitni hefði verið rænt. Hann sagðist ekki vilja fjalla um málið á þeim nótum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×