Innlent

Kompás í kvöld: Rannsókn á dularfullum dauðsföllum

Valtýr Sigurðsson, sem tók við embætti Ríkissaksóknara um áramót, hefur snúið þeirri ákvörðun forvera síns að neita ættingjum tveggja látinna manna að sjá lögreglugögn um rannsókn á vofveiflegu fráfalli þeirra.

Einar Þór Agnarsson og Sturla Steinsson fundust örendir í bíl við Daníelsslipp árið 1985 og var málið afgreitt sem sameiginlegt sjálfsvíg. Vísbendingar eru þó um að málið hafi síðar verið rannsakað sem sakamál en ættingjar þeirra hafa aldrei sæst á opinberar skýringar lögreglu.

Í Kompási í kvöld er fjallað ítarlega um baráttu ættingjanna, sem hefur staðið misserum saman, um að fá óheftan aðgang að gögnum um málið, lögregluskýrslur og krufningsskýrslur. Upphaflega neitaði Ríkisslögreglustjóri að afhenda þeim gögnin en þeirri höfnun var skotið til Boga Nilssonar, ríkissaksóknara sem staðfesti hana.

Ættingjarnir höfðu fengið umboðsmann Alþingis í lið með sér og þrýsti hann á embættið að gefa skýringar á ákvörðun sinni og endurskoða hana. Stóð það þref framyfir áramót þegar Valtýr Sigurðsson tók við af Boga. Nýr ríkissaksóknari ákvað að taka málið upp og úrskurðaði nú undir vor að ættingjarnir, börn og systkini hinna látnu, fengju aðgang að gögnum lögreglu.

Þetta mál kann að vera fordæmi því ættingjar fleiri látinna einstaklinga sem ósátt eru við rannsókn lögreglu eða afgreiðslu dómstóla hafa krafist þess að fá aðgang að rannsóknargögnum. Þessum umleitunum hefur til þessa verið hafnað en breyting gæti orðið á í ljósi lagatúlkunar nýja ríkissaksóknarans.

Ítarlega verður fjallað um málið í Kompási í kvöld klukkan 21.50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×