Innlent

Hefur ekki skipt um skoðun

Ólafur F Magnússon borgarstjóri í Reykjavík.
Ólafur F Magnússon borgarstjóri í Reykjavík.

Vegna sjónvarpsfrétta undanfarna daga vill borgarstjóri árétta að það er ekki rétt túlkun á ummælum mínum að ég hafi í grundvallar atriðum skipt um skoðun varðandi verðlaunatillögu um þróun Vatnsmýrarinnar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Ólafur F Magnússon borgarstjóri hefur sent fjölmiðlum.

Þar segir ennfremur:

„Það liggur fyrir og er ekkert nýtt að ég hef talið að framtíðarþróun Vatnsmýrarinnar eigi ekki að fela í sér flutning flugvallar, eins og verðlaunatillagan gerir ráð fyrir. Að því leiti er ég ekki sáttur við tillöguna, en sú afstaða er hvorki ný né fréttnæm.

Ég er hins vegar sömu skoðunar og ég var í febrúar sl. um að hafa megi verðlaunatillöguna til hliðsjónar við uppbyggingu á jaðarsvæðum flugvallarins, óháð staðsetningu hans. Ég tel hins vegar brýnt að tillagan lagi sig að ýmsum samgöngulausnum og skipulagslegum staðreyndum en ekki öfugt.

Tillagan gerir meðal annars ekki ráð fyrir lagningu Hlíðarfótar eða Öskjuhlíðargöngum. Þá gerir hún ráð fyrir lagningu Snorrabrautar þvert yfir Hlíðarendasvæðið. Enn fremur leysir hún ekki umferðartengingar frá Hringbraut að Landsspítala-Háskólasjúkrahúsi og Háskólanum í Reykjavík.

Ég hef fullvissað mig um að tekið verður á þessum atriðum hjá þeim sem leiða skipulagsvinnu við jaðarsvæði Vatnsmýrarinnar og að sú vinna sé í góðum farvegi og ber fullt traust til þeirra sem verkefnið leiða í umboði borgarráðs."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×