Innlent

Jón Steinar konungur sératkvæðanna

Enginn hæstaréttardómari hefur skilað viðlíka fjölda sératkvæða í dómum réttarins og Jón Steinar Gunnlaugsson. Umdeildustu dómararnir skila flestum sératkvæðum. Lögspekingar telja þau ýmist eðlilegan fylgifisk flókinna mála eða merki um flokkadrætti og slæman samstarfsanda í Hæstarétti.

Það eru skiptar skoðanir um það meðal lögfróðra manna hvort gott sé eða slæmt að dómarar skili sératkvæðum. Hitt er víst að tveir menn skera sig úr hópi dómara í Hæstarétti þegar talin eru sératkvæði sem skilað hefur verið frá því haustið 2003.

Alls skiluðu dómarar sératkvæðum í 121 máli á þessum tæpu fimm árum.Tíu af þeim tólf dómurum sem skiluðu sératkvæðum á þessu tímabili hafa gert það frá einu skipti og upp í ellefu sinnum, að meðaltali í tæplega sex skipti.

Þeir tveir sem skera sig úr - eiga það sameiginlegt að skipun þeirra var ákaflega umdeild. Annar er Ólafur Börkur Þorvaldsson. Hann hefur í 29 skipti séð ástæðu til að skila sératkvæði. Hinn er Jón Steinar Gunnlaugsson sem hefur skilað sératkvæði átta sinnum oftar en meðaldómarinn á þessu tímabili - eða 47 sinnum. Flestir þeirra lögmanna sem fréttastofa Stöðvar 2 ræddi við í dag, telja að sératkvæði geti verið mikilvæg og eða eðlileg. Róbert Spanó, lagaprófessor við Háskóla Íslands, segir ágreining meðal dómara eðlilegan fylgifisk þess að Hæstiréttur leysi úr flóknum viðfangsefnum. Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður segir flest sératkvæði snúast um sönnunarmat og þau væru hið besta mál, sýndu að dómurinn væri skipaður fólki með fjölbreyttan bakgrunn. Enda sé lögspeki engin náttúruvísindi. Hins vegar hefðu dómar Hæstaréttar minna fordæmisgildi þegar þriggja eða fimm manna dómur klofnar með sératkvæðum.

Sumir lögmenn sögðu lotterí hjá hvaða dómurum menn lentu, og gæti haft úrslitaáhrif á dómsniðurstöðu. Aðrir sögðu sératkvæði vísbendingu um slæman samstarfsanda meðal hæstaréttardómara og flokkadrætti. Einn orðaði það svo að allir vissu hvernig skipun Ólafs Barkar og Jóns Steinars væri tilkomin - sérálit þeirra ættu ekki að koma nokkrum á óvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×