Íslenski boltinn

Víðir frá í nokkrar vikur hið minnsta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Víðir Leifsson er hér sárkvalinn í leiknum í gær og vinstri öxlin farin úr liðnum.
Víðir Leifsson er hér sárkvalinn í leiknum í gær og vinstri öxlin farin úr liðnum.

Víðir Leifsson er á ágætum batavegi eftir að hafa farið úr axlarlið í gær en verður þó frá í nokkrar vikur að minnsta kosti.

Atvikið gerðist snemma í leik Fylkis og HK en Víðir leikur sem varnarmaður hjá Fylki. Hann sagði í samtali við Vísi í dag að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem öxlin fer úr lið.

„Þetta er í raun í þriðja skiptið en í fyrstu tvö skiptin fór öxlin úr og í liðinn í sömu hreyfingunni. Þetta var því í fyrsta skiptið í gær sem hún festist úr liðnum," sagði Víðir.

„Þetta er algjör viðbjóður og mikill sársauki sem fylgir þessu," sagði Víðir en kallað var á sjúkrabíl og sjúkraliðar settu öxlina aftur í liðinn á staðnum.

„Ég fékk morfín í að og svo var lagst ofan á mann og öxlin pínd í liðinn. Þetta tók dágóðan tíma og var allt annað en þægilegt."

Hann veit ekki hversu alvarleg meiðslin eru en ef liðbönd skemmast þarf hann sennilegast að fara í aðgerð og yrði þá frá í lengri tíma. „Ég held að það komi ekki til þess og ég er miklu betri í dag en í gær. Ég fór strax í myndatöku í gær og kom ekkert óeðlilegt úr henni."

„En höggið sem ég fékk var ekki það mikið og því hefur öxlin verið fremur laus í liðnum. Ég þarf því að láta athuga það og get því ekki keppt í því ástandi. Ég verð því frá í einhverjar vikur, að minnsta kosti."

Víðir fer aftur í skoðun eftir tíu daga og verður tekin ákvörðun um framhaldið þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×