Innlent

Hið opinbera rekið með 71 milljarðs afgangi í fyrra

MYND/E.Ól

Tekjuafkoma hins opinbera var jákvæð um nærri 71 milljarð króna í fyrra, eða sem nemur 5,5 prósentum af landsframleiðslu. Þetta kemur fram í yfirliti Hagstofunnar yfir fjármál hins opinbera.

Til samanburðar var tekjuafkoman jákvæð um 6,3 prósent af landsframleiðslu árið 2006 og 4,9 prósent árið 2005. Á vef Hagstofunnar segir að þessi góða afkoma í fyrra stafi fyrst og fremst af miklum tekjuafgangi ríkissjóðs sem nam fjórum prósentum af landsframleiðslu.

Fjárhagur sveitarfélaganna hafi þó verið jákvæður síðustu þrjú árin þótt hann sé misjafn. Árið 2007 nam tekjuafgangur þeirra 8 milljörðum króna, eða 0,6 prósentum af landsframleiðslu, og árið 2006 um fjórum milljörðum króna, eða 0,3 prósent af landsframleiðslu.

Alls reyndust tekjur hins opinbera 624 milljarðar króna í fyrra og hækkuðu um 63 milljarða á milli ára. Sem hlutfall af landsframleiðslu námu þær nærri 50 prósentum og hafa ekki í annan tíma verið hærri. Útgjöld hins opinbera námu 553 milljörðum króna í fyrra og hækkuðu um nærri 67 milljarða króna, eða nærri fjórum milljörðum króna meira en tekljurnar.

Heildarútgjöld til heilbrigðismála í fyrra námu 119 milljörðum króna, eða 9,2 prósentum af landsframleiðslu. Til fræðslumála var ráðstafað rúmum 106 milljörðum króna og til almannatrygginga og velferðarmála ráðstafaði hið opinbera rúmum 111 milljörðum króna.

 

„Heildar peningaleg eign hins opinbera nam 709 milljörðum króna og heildarskuldir ríflega 700 milljörðum króna. Hrein peningaleg eign hins opinbera, þ.e. peningaleg eign umfram skuldir, var jákvæð um 8,6 milljarða króna í árslok 2007, eða um 0,7% af landsframleiðslu," segir enn fremur á vef Hagstofunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×