Innlent

Færri aka í gegnum Hvalfjarðargöngin

Færri aka í gegnum Hvalfjarðargöngin en á sama tíma í fyrra. Ástæðuna má rekja til hækkandi bensínverðs og samdráttar í efnahagslífinu.

Umferð í gegnum Hvalfjarðargöngin hefur aukist ár frá ári, allt frá því þau voru opnuð þann 11. júlí 1998. Kemur þar til aukin bifreiðaeign landsmanna með tilheyrandi ferðalögum auk fjölgun íbúa á suðvesturhorninu, svo eitthvað sé nefnt. Þannig fóru 984 þúsund ökutæki um göngin á fyrsta rekstrarárinu en um tvær milljónir rekstrarárið 2006 til 2007.

En nú horfir svo við að umferð í gegnum göngin er minni en á sama tíma í fyrra. Sé miðað við tímabilið 1. maí til 17. júlí fóru rúmlega 537 þúsund bílar í gegnum göngin, en á sama tíma í ár voru bílarnir um 508 þúsund. Þeim hefur semsagt fækkað um nærri 30 þúsund.

Júlímánuður er tími ferðalaga og því er forvitnilegt að bera saman umferð júlímánaðar síðustu ára. Allt frá árinu 2004 hefur umferð aukist á milli ára, mest um 16 prósent árið 2004, minnst árið 2006 og í fyrra jókst umferðin um 9 prósent frá árinu þar á undan. En í ár fækkar ferðum ökutækja í gegnum göngin um ellefu prósent.

Nærtækasta skýringin á þessari fækkun er mikil hækkun bensínverðs á þessu ári samhliða hröðum samdrætti í efnahagslífinu. Þetta rímar við fullyrðingar olíufélaganna sem segjast hafa orðið vör við merkjanlegan samdrátt í eldsneytissölu undanfarin misseri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×