Erlent

Brown svarar spurningum á YouTube

MYND/AP

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hyggst svara spurningum á myndbandavefnum YouTube í þeirri viðleitni að ná til yngri kjósenda og hrista af sér það orð að hann sé gamaldags.

Eftir því sem Reuters-fréttastofan segir frá mun fólk geta lagt fram spurningu á myndbandi og mun Brown svara þeim spurningum sem flest atkvæði fá á YouTube. Brown þarf reglulega að svara fyrir gerðir sínar í fyrirspurnartíma á breska þinginu en með þessu vill hann gefa fleiri en þingmönnum kost á að spyrja hann spjörunum úr.

Brown leggur mikið upp úr því þessa dagana að bæta ímynd sína enda hefur fylgi við flokk hans, Verkamannaflokkinn, minnkað hröðum skrefum að undanförnu, meðal annars í nýafstöðum sveitastjórnarkosningum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×