Erlent

Sérsveitarmenn búa sig undir frelsun gísla í Mumbai

Fyrir skömmu varð enn ein sprenging nálægt Taj hótelinu í Mumbai. Herlið býr sig nú undir að ráðast til inngöngu í Taj og Oberoi hótelin í borginni ásamt ísraelskri menningarmiðstöð. Umsátursástand hefur ríkt við hótelin, þar sem hryðjuverkamenn sem sagðir eru tilheyra samtökunum Deccan Mujahideen halda fólki í gíslingu.

Meira en 100 eru látnir og 315 særðir eftir sprengjuárásir í borginni í gær.

Lögregla segir tilræðismennina hafa verið vel skipulagða þegar þeir lögðu til atlögu á mörgum stöðum samtímis um klukkan hálfsex í gærkvöldi að íslenskum tíma. Meðal annars féllu tugir manna á járnbrautarstöð í Mumbai þar sem árásarmennirnir beittu handsprengjum og hríðskotabyssum gegn mannfjölda sem átti erfitt með að koma sér undan sökum þrengsla.

Þá varð hótelið Taj Mahal illa úti í árásinni ásamt fleiri hótelum og Cama-sjúkrahúsið varð einnig fyrir árás. Svo virðist sem árásarmennirnir hafi miðað út staði þar sem búast mátti við að erlendir ferðamenn hittust fyrir.

Mikil ringulreið ríkir í Mumbai og eldar loga enn víða. Ester Ágústa Berg, sem býr í Mumbai, yfirgaf eitt hótelanna sem ráðist var á örfáum mínútum áður en það gerðist. Fjölskylda hennar er ekki í hættu en mikil óvissa ríkir í borginni um framtíðaröryggi íbúanna, sagði Ester Ágústa í viðtali við Vísi í morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×