Innlent

Hæna handsömuð í Hafnarfirði

MYND/Hari

Það er víða á landinu sem lögreglumenn þurfa að glíma við það erfiða verkefni að fanga dýr. Skemmst er að minnast viðureigna lögreglunnar á Sauðárkróki við tvo hvítabirni sem á endanum voru báðir felldir.

Það var heldur minna dýrið sem lögreglumenn í Hafnarfirði glímdu við í gærkvöldi en þá var tilkynnt um hænu í miðbæ Hafnarfjarðar. Segir í dagbók lögreglunnar að viðbúnaðurinn hafi þó ekki verið eins mikill og á Hrauni á Skaga og ekki þurfti að leita til danskra dýrafangara í þetta skiptið.

Lögreglumenn á lögreglubifreið fóru á staðinn og hófu eftirför á eftir hænunni en hún var ekki samstarfsfús í fyrstu og lét ekki ná sér frekar en björninn. Hænan gafst þó upp að lokum og var flutt á lögreglustöðina til viðtals. Ekki fékkst uppgefið hvert erindi hænunnar var í miðbæ Hafnarfjarðar eða hvernig hún komst þangað en málið er í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×