Innlent

Íslendingum fjölgaði mest í Reykjanesbæ

Árni Sigfússon á íbúafundi.
Árni Sigfússon á íbúafundi.

Íslenskum ríkisborgurum fjölgaði mest í Reykjanesbæ árið 2007. Fjölgun íbúa Reykjanesbæjar nam 1328 á síðasta ári og þar af voru íslenskir ríkisborgarar 915. Í tilkynningu frá bænum kemur fram að fjölgað hafi alls um 500 manns á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs. Nú þegar hafi orðið 26% fjölgun íbúa í Reykjanesbæ á fjórum árum og er íbúatalan komin yfir 13800. Erlendum ríkisborgurum fjölgaði um 413.

„Þetta kom m.a. fram á íbúafundi í Innri-Njarðvík sem Árni Sigfússon bæjarstjóri hélt í gærkvöldi. Alls sóttu um 160 íbúar fundinn en honum var jafnframt hljóðvarpað á netinu," segir í tilkynningunni. „Í máli Árna kom m.a. fram að erlendum ríkisborgurum fjölgaði um 413 í Reykjanesbæ á síðasta ári. Þeim fjölgaði mest í Reykjavík eða um 1958. Þá fjölgaði erlendum ríkisborgurum einnig meira í Hafnarfirði, eða um 495."

Næsti íbúafundur með bæjarstjóra verður haldinn í kvöld kl. 20:00 í Njarðvíkurskóla.

Áætlaðir eru alls sex fundir í hverrfum bæjarins að þessu sinni en fundirnir eru haldnir á hverju ári. Á fundunum er farið yfir helstu verkefni bæjarfélagsins, rætt um aðbúnað í viðkomandi hverfum, svarað fyrirspurnum og tekið við ábendingum um það sem betur má fara í bæjarfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×