Innlent

Feðgarnir fundnir heilir á húfi

Þær upplýsingar voru að berast frá lögreglu rétt í þessu að norsku feðgarnir sem leitað var í alla nótt séu komnir fram. Þeir voru sofandi í bifreið sinni við Jökulsárlón.

Feðgarnir voru að sögn lögreglu í góðu yfirlæti og höfðu ekki hugmynd um að leit að þeim hefði staðið yfir. Þeir munu að líkindum halda sig við ferðaáætlun sína og sigla til baka með ferjunni Norrænu á morgun. Leit að þeim hófst á hálendinu norðan Vatnajökuls í gær þegar ættingjar fóru að óttast um þá þar sem ekkert hafði heyrst frá þeim síðan á fimmtudagskvöld.

Talið var að ferðinni hafi verið heitið upp á hálendi en þar er allt meira og minna ófært. Vegna lélegs skyggnis var ekki hægt að hefja leit úr lofti. Eftir að greint var frá leitinni í fréttum klukkan sjö í morgun bárust upplýsingar frá Vík í Mýrdal um að þeir hefðu verið þar á laugardag og sunnudag og ætlað austur um til Seyðisfjarðar. Þá var leitinni beint á svæðið á milli víkur og Seyðisfjarðar með þeim árangri að þeir fundust heilir á húfi við Jökulsárlón fyrir stundu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×