Innlent

Hátt í 90% keyra minna eftir eldsneytishækkun

Hátt í níutíu prósent landsmanna eru farin að keyra minna eftir að bensínverðið rauk upp, samkvæmt nýrri könnun Stöðvar 2. Fleiri konur spara við sig í dýrtíðinni en karlar og þeir sem hæstar hafa tekjurnar eru ólíklegastir til að draga úr notkun bílsins.

Það var Capacent sem kannaði fyrir fréttastofu Stöðvar 2 hvort verðhækkun á eldsneyti hefði dregið úr akstri landsmanna. Hringt var í fólk dagana 12-16. júní. Úrtakið var tæplega 1140 manns á aldrinum 16-75 ára og var svarhlutfall 51%.

Níutíu og sjö prósent þeirra sem svöruðu kváðust eiga eða hafa afnot af bíl.

Síðan var spurt: Hefur verðhækkun á eldsneyti dregið mikið, nokkuð, lítið eða ekkert úr notkun þinni á bílnum?

Rúm 15 prósent sögðu mikið, ríflega 42 prósent sögðu nokkuð, rösk 29 prósent sögðu lítið - en aðeins rúm 13% sögðu að eldsneytishækkanir hefðu ekki haft nokkur áhrif á aksturinn.

Það þýðir að tæplega 87% svarenda hafa dregið eitthvað úr akstri eftir að eldsneytislítrinn tók að hækka.

Nokkur munur er á kynjunum. 52,5% karla sögðust hafa dregið mikið eða nokkuð úr notkun á bílnum, en öllu fleiri konur, eða 62,2%.

Og þeir efnaðri eru líklegri til að keyra eins og ekkert hafi í skorist.

Þannig segjast 68% svarenda sem eru með innan við 400 þúsund krónur í mánaðartekjur hafa dregið mikið eða nokkuð úr notkun á bílnum, en 45% þeirra sem hafa 550 þúsund eða meira í tekjur.

Og menntunin skilar sér ekki í hagsýni. Sjötíu og eitt prósent svarenda með grunnskólapróf aka nú minna en 50% þeirra sem eru með háskólapróf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×