Innlent

Íslendingur í Malmö: Varð vitni að vopnuðu bankaráni

Breki Logason skrifar
Frá Malmö í Svíþjóð
Frá Malmö í Svíþjóð

„Við konan vorum í bankanum að sinna smá erindi þegar það komu tveir grímuklæddir menn inn í bankann og skipuðu fólki að leggjast á gólfið. Annar þeirra var með byssu og hinn með öxi, síðan heimtuðu þeir peningana," segir Þorbjörn Gíslason sem búsettur er í Malmö í Svíþjóð.

Þorbjörn segir eitthvað lítið hafa verið um peninga í skúffum bankans og því hafi mennirnir farið fljótlega. „Þetta tók mjög stuttan tíma, örugglega innan við mínútu."

Þorbjörn segist ekki vita hvort lögreglan hafi haft hendur í hári ræningjanna en ekkert hefur verið sagt frá ráninu í sænskum fjölmiðlum í dag.

Hann segist ekki hafa orðið skelkaður og í staðinn fyrir að leggjast á gólfið eins og mennirnir heimtuðu, rölti hann að stólum sem voru við gluggann og fékk sér sæti.

„Þetta var eitthvað svo óraunverulegt og ég upplifði þetta bara eins og einhverja lélega ameríska B-mynd. Sá sem var með byssuna bar sig líka eins og hann hefði séð nokkrar svoleiðis myndir," segir Þorbjörn sem búið hefur í Malmö í tvö og hálft ár.

Hann segir flesta hafa verið mjög rólega yfir uppákomunni en þó hafi gjaldkeranum sem var ung stúlka verið nokkuð brugðið. „Sá sem var með byssuna beindi henni að henni og hótaði að skjóta ef hún léti hann ekki fá peningana, henni leið mjög illa eftir á."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×