Innlent

„Þetta er enginn fullnaðarsigur“

Sú ákvörðun ljósmæðra og fjármálaráðherra að fallast á miðlunartillögu ríkissáttasemjara um kjarabætur til handa ljósmæðrum þýðir að verkföllum ljósmæðra, sem boðuð höfðu verið í næstu og þarnæstu viku, er aflýst. Þá hættir fjármálaráðherra við að stefna ljósmæðrum fyrir félagsdóm vegna meintra ólögmætra uppsagna.

Mikill meirihluti ljósmæðra samþykkti tillöguna sem felur í sér að laun ljósmæðra hækka um 22,6 prósent, en ljósmæður fóru fram á 25 prósenta hækkun.

Vísir náði tali af Guðlaugu Einarsdóttur, formanni Ljósmæðrafélags Íslands, þegar búið var að fagna niðurstöðunni með hefðbundnum samningavöfflum hjá ríkissáttasemjara. Guðlaug segir ljósmæður fegnar að niðurstaða sé komin í málið. „En þetta er enginn fullnaðarsigur. Þetta er eitt stórt skerf á lengri leið sem við höldum áfram og miðar að því að leiðrétta kjör okkar," sagði Guðlaug. Þráðurinn verði tekinn upp þegar samningurinn við ríkið rennur út í lok mars á næsta ári.

Samningaviðræður ljósmæðra við ríkið hafa staðið frá því um miðjan apríl og mikið hefur mætt á forystu félagsins. Aðspurð um hennar líðan eftir törnina segir Guðlaug: „Fjögurra ára dóttir mín sagði við mig í morgun að hana hefði dreymt að ég væri í vinnunni og ég held að það segi allt sem segja þarf um álagið," segir Guðlaug.

Ljósmæður ætla að gera sér glaðan dag í kvöld og fjölmenna á sýninginu á myndinni Mamma Mia sem notið hefur gríðarlegra vinsælda hér á landi. Guðlaug segir von á yfir 100 ljósmæðrum í kvöld og aðspurð á hún von á því að þær taki vel undir með leikurum myndarinnar þegar þeir bresta í söng.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×