Innlent

Engin merki um breytta stefnu Sjálfstæðisflokksins í ESB-málum

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra segir ekki nein merki um breytingar á stefnu Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum eins og staðan sé í dag en það geti breyst. Þetta kom fram í fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, gerði fundaherferð sjálfstæðismanna á síðustu dögum að umtalsefni og sagði að þaðan hefðu tíðindi borist. Vísaði hún meðal annars til orða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins, á fundi sjálfstæðismanna í Kópavogi í gærkvöldi. Þar hefði Þorgerður Katrín sagt að sjálfstæðismenn ættu að hafa forystu í umræðum um kosti og galla ESB-aðildar og að þjóðaratkvæðagreiðsla um málið ætti að fara fram á næsta kjörtímabili.

Sagði Valgerður að þessi yfirlýsing þýddi að breyta þyrfti stjórnarskránni á þessu kjörtímabili og Jón Kristjánsson, fyrrverandi ráðherra og formaður stjórnarskrárnefndar, væri í startholunum.

Árni Mathiesen kom í pontu og sagði Valgerði ekki hafa lagt fram neina spurningu. Hann sagði þó að sjálfstæðismenn hefðu verið í fundaherferð og á þeim fundum hefðu Evrópumál verið rædd eins og á öðrum fundum svo langt aftur sem elstu menn myndu.

Fjármálaráðherra benti hins vegar á að engin merki væru um það að breytingar hefðu orðið á stefnu Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum en það gæti breyst. Ljóst væri að engin atkvæðagreiðsla um málið yrði á þessu kjörtímabil og ótímabært væri að tala um dagsetningar um þjóðaratkvæðagreiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×