Innlent

Nýi Glitnir lánar húsnæði til Nýsköpunar

Birna Einarsdóttir bankastjóri Nýja Glitnis og Sigríður Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri á Nýsköpunarmiðstöð undirrita samninginn.
Birna Einarsdóttir bankastjóri Nýja Glitnis og Sigríður Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri á Nýsköpunarmiðstöð undirrita samninginn.

Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Nýi Glitnir undirrituðu í dag samning um rekstur nýs viðskiptaseturs í húsnæði Nýja Glitnis í Lækjargötu. Nýi Glitnir leggur til tvær hæðir í húsnæði bankans í Lækjargötu 12 en rekstur setursins verður í höndum Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöðinni og Nýja Glitni. Þar segir ennfremur að á viðskiptasetrinu í Lækjargötu verði skrifstofuaðstaða fyrir 30 manns.

Undanfarnar vikur hefur orðið gífurleg vakning um mikilvægi nýsköpunar og er samningur Nýja Glitnis og Nýsköpunarmiðstöðvar liður í aðgerðum miðstöðvarinnar til að styðja við sprotafyrirtæki.

,,Ég er mjög ánægð með þetta samstarf okkar við Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Það hefur sjaldan verið jafnmikilvægt að hlúa að sprotastarfsemi á Íslandi og nú og ég er viss um að starfsemin í þessu húsi á eftir að bera ávöxt," segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Nýja Glitnis.

Í nýja viðskiptasetrinu í Lækjargötu munu einstaklingar og hópar fá aðstöðu til að vinna að frumkvöðlahugmyndum gegn sanngjarnri leigu undir faglegri umsjón sérfræðinga Impru á Nýsköpunarmiðstöð. Hægt er að sækja um aðstöðu á vef Nýsköpunarmiðstöðvar, www.nmi.is.

Sigríður Ingvarsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands segir að nú sé að losna um mikinn mannauð í íslensku atvinnulífi og mikilvægt sé að hlúa að honum og byggja upp ný atvinnutækifæri.

„Íslendingar eru í eðli sínu miklir frumkvöðlar og skapandi. Fjölmargir einstaklingar hafa leitað ráða hjá okkur varðandi stofnun og rekstur nýrra sprotafyrirtækja og það er frábært að geta boðið þeim aðstöðu, stuðning og faglega aðstoð við framkvæmd viðskiptahugmyndanna og því fögnum við þessu góða samstarfi Nýja Glitnis og Nýsköpunarmiðstöðvar," segir Sigríður Ingvarsdóttir framkvæmdastjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Áður hefur Nýsköpunarmiðstöð Íslands opnað Torgið - viðskiptasetur í samvinnu við Landsbankann í Pósthússtræti, sem hóf starfsemi í byrjun desember. Auk þess rekur Impra á Nýsköpunarmiðstöð frumkvöðlasetur á Keldnaholti í Reykjavík, á Höfn í Hornafirði og í Eldey á Keilissvæðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×