Innlent

Litlar líkur á hækkunum á leigubílataxta á næstunni

Leigubílastöðvar gera ekki ráð fyrir hækkunum hjá sér vegna hærra eldsneytisverðs á næstunni. Taxtinn hækkar þó í samræmi við aðrar hækkanir í þjóðfélaginu. Hækkandi olíverð hefur haft mikil áhrif víða í heiminum og hefur komið við buddu þeirra landsmanna sem reka fólksbifreiðar.

Róbert Geirsson bifreiðastjóri hjá BSR segir þá endurskoða taxta sinn á 6 mánaðafresti og fari sú endurskoðun eftir framfærsluvísitölu og verðbólgu. Þeir hafi hækkað seinast í byrjun júní og þá hafi til að mynda almennt startgjald farið úr 450 krónum í 500 krónur. Hann telur það ekki koma fram fyrr en með haustinu hvernig kreppan komi við leigubílareksturinn. Á sumrin sé ferðamennskan í landinu það mikill að nóg sé að gera hjá þeim. Hann telur leigubílaverð þurfi að fara eftir því hvað fólk á efni á svo að þeir geti haldið áfram starfsemi sinni.

Hlynur Vigfússon er formaður verðlagsnefndar hjá Hreyfli. Hann segir alltaf til athuganar hvernig hækkanir í þjóðfélaginu hafi áhrif á taxtann en samkeppni á leigubílamarkaði mun að öllum líkinum koma í veg fyrir miklar hækkanir. Samkvæmt honum er fólk ekki farið að taka leigubíla minna. Ef eitthvað er þá er fremur aukning í leigubílanotkun. Hreyfill tekur inn allar lágmarkshækkanir og að þeir hafi hækkað verðið um 11-12% á árinu, inni í því er 4-5% vegna bensínhækkanna. Þessar hækkanir sjást meira á kílómetraverðinu en startgjaldið hjá þeim hefur verið 490 krónur í tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×