Innlent

Þórhallur Gunnarsson fyrir rétti í beinni frá Spáni

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

„Það hafði áhrif á málið að þrír einstaklingar veita tengdadóttur þess fjórða viss ríkuleg réttindi," sagði Þórhallur Gunnarsson, ritstjóri Kastljóss Ríkisútvarpsins, þegar Eggert Óskarsson héraðsdómari spurði hann um fréttamat þáttarins og vinnslu heimilda um mál Jónínu Bjartmarz, fyrrverandi umhverfisráðherra, og tengdadóttur hennar. Vísir greindi frá öðrum vitnaleiðslum í málinu fyrr í dag og má lesa þær í frétt sem tengd er við þessa með því að smella á hlekkinn neðst.

Þórhallur gaf skýrslu sína símleiðis og var staddur á Spáni. Með ummælum sínum vísaði hann til þess að þrír þingmenn hefðu átt þátt í því að veita dóttur fjórða þingmannsins íslenskan ríkisborgararétt. Þórhallur bað dóminn að líta fram hjá stjórnmálaflokkum og því að um Alþingi væri að ræða. Þarna væri bara vinnustaður 63 aðila og þrír þeirra hefðu tekið ákvörðun í máli tengadóttur vinnufélaga síns sem snerist um réttindi sem væru talin ein þau mikilvægustu á Íslandi - ríkisborgararéttinn.

Hverjar voru upplýsingarnar?

Dögg Pálsdóttir hæstaréttarlögmaður, sem flutti málið fyrir hönd sóknaraðilanna Birnis Orra Péturssonar og unnustu hans, Lucia Celeste Molina Sierra, spurði Þórhall ítarlega út í það hvaða upplýsingar Kastljósmenn hefðu haft um að Útlendingastofnun hefði lagst „eindregið gegn því að veita þessum aðila ríkisborgararétt". Kvað Þórhallur þá hafa verið fleiri en einn og fleiri en tvo en neitaði að gefa nokkrar frekari uplýsingar um heimildamennina. Komið hafði fram í skýrslu Sigmars Guðmundssonar fyrir dómi fyrr í morgun að heimildamenn Kastljóss hefðu verið fólk sem var í stöðu til að vita um og þekkja málið frá sjónarhóli stjórnsýslunnar.

Dómarinn spurði Þórhall einnig hvort Kastljós hefði í kjölfar fréttaflutnings síns komist að þeirri niðurstöðu að allsherjarnefnd Alþingis hefði misfarið með vald sitt þegar tengdadóttur ráðherrans var veittur ríkisborgararéttur. Svaraði Þórhallur því að ekki hefði verið komist að sérstakri niðurstöðu í málinu, ritstjórar þáttarins hafi hins vegar talið málið eiga fullt erindi til almennings sem gæti svo komist að sinni eigin niðurstöðu.

Vinnubrögð allsherjarnefndar aðalmálið

Jóhanna Vilhjálmsdóttir, dagskrárgerðarmaður Kastljóssins, flutti sinn vitnisburð einnig símleiðis en hún var stödd utan höfuðborgarsvæðisins. Jóhanna sagði málið í raun ekki hafa snúist um það hvaða upplýsingar dagskrárgerðarfólkið hefði haft undir höndum eða hvaðan þær væru komnar. Það sem skipt hefði máli væru vinnubrögð allsherjarnefndar Alþingis við veitingu ríkisborgararéttar og sú staðreynd að ráðherrann sem hlut átti að máli hefði komið í viðtal og rætt þar um mannréttindabrot gegn konum í Gvatemala þegar raunverulegur tilgangur að baki veitingu ríkisborgararéttarins hefði snúist um allt annað.


Tengdar fréttir

Sökuðu Kastljós um ófrægingarherferð gegn Jónínu Bjartmarz

Aðstandendur Kastjóss voru sakaðir um að hafa verið í ófrægingarherferð gegn Jónínu Bjartmarz, fyrrverandi umhverfisráðherra, í meiðyrðamáli sem sonur Jónínu og tengdadóttir hafa höfðað vegna umfjöllunar Kastljóss um ríkisborgararétt tengdadótturinnar. Aðalmeðferð í málinu hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×