Innlent

Höfuðpaur TR-máls í þriggja ára fangelsi - helmingur sakborninga í fangelsi

Rannveig Rafnsdóttir, höfuðpaurinn í fjársvikamáli tengdu Tryggingastofnun ríkisins, var í dag dæmd í þriggja ára fangelsi. Rannveig er fyrrverandi þjónustufulltrúi TR og var ákærð fyrir að hafa stolið um 76 milljónum króna úr sjóðum stofnunarinnar á tímabilinu 2. janúar 2002 til 9. júni 2006 og komið til vina og vandamanna.

Alls voru 20 ákærðir vegna málsins en þáttur fimm manna hafði áður verið gerður upp. Fimmmenningarnir, sem tengdust konunni á ýmsan hátt, voru dæmdir í tveggja til níu mánaða fangelsi en allir dómarnir voru skilorðsbundnir.

Þáttur Rannveigar og fjórtán annarra var gerður upp í dag en Rannveig hafði sjálf játað brot sitt við þingfestingu í héraðsdómi um miðjan mars í fjölmennustu þingfestingu í sögu Héraðsdóms Reykjavíkur.

Sem fyrr segir var hún dæmd í þriggja ára fangelsi og til þess að greiða Tryggingastofnun það sem hún tók, hátt í 76 milljónir króna. Af þeim fjórtán sem dæmdir voru í dag voru tveir sýknaðir af aðild að málinu, einum var ekki gerð refsing og refsingu eins var frestað haldi hann skilorð. Flestir aðrir fengu á bilinu þriggja til tólf mánaða fangelsi. Einn fékk þó níu mánaða dóm, þar af sex skilorðsbundna og annar tólf mánuði, þar af níu skilorðsbundna. Þá fékk einn sakborningur tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Samverkamennirnir nítján, karlar og konur á aldrinum 20 til 54 ára, voru ákærðir fyrir hylmingu en til vara peningaþvætti fyrir að taka á móti fé frá Rannveigu inn á reikninga sína. Fjórir einstaklingar af þeim voru svo ákærðir fyrir hlutdeild í fjársvikum þjónustufulltrúans með því að fá samþykki frá 15 fyrir því að greiðslur sem sviknar voru út úr Tryggingastofnun ríkisins yrðu lagðar inn á bankareikning þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×