Innlent

Ísbjörninn var grænmetisæta

Ísbjörninn sem gekk á land fyrir norðan í síðustu viku er að öllum líkindum eldri en menn höfðu áður talið. Gróðurleifar fundust í maga hans við krufningu en hvorki kjöt né fiskur. Forstöðumaður Náttúrufræðistofu á Norð-vesturlandi segir að rétt hafi verið að aflífa dýrið.

Ísbjörninn var krufinn í húsakynnum Loðskinns á Sauðárkróki í gær. Þorsteinn Sæmundsson, forstöðumaður Náttúrufræðistofu á Norðvesturlandi, segir að líklegast sé að dýrið hafi gengið á land á utanverðum Skaga, en þá var rekísspöngin um 40 - 60 sjómílur frá landi. Þegar björninn var vigtaður í gær reyndist hann vera 216 kíló sem undir venjulegum kringumstæðum benti til að dýrið væri ungt.

Hins vegar voru tennur þannig slitnar að líkur eru á að um fullorðið karldýr sé að ræða en þau geta náð allt að sex til sjö hundruð kílóa þyngd, en það er þó misjafnt eftir stofnum. Þorsteinn segir að öllum sýnatökum hafi lokið í gær en það taki nokkurn tíma að rannsaka þau. Hann segist skilja að mörgum gremjist að dýrið hafi verið fellt en það sé ekki einfalt mál að deyfa ísbjörn og halda honum deyfðum.

Líkur eru á að ísbjörninn hafi verið búinn að vera á landi í að minnsta kosti sólarhring því eins og fréttablaðið Feykir greinir frá í dag sá níu ára stúlka björninn daginn áður en hann var felldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×