Innlent

Meindýraeyðir sakfelldur fyrir vopnalagabrot en refsingu frestað

Hæstiréttur sakfelldi í dag fyrrverandi meindýraeyði fyrir vopnalagabrot en frestaði ákvörðun um refsingu hans skilorðsbundið í tvö ár. Maðurinn var ákærður fyrir að hafa haft í fórum sínum fjölmargar byssur án þess að geyma þær í hirslum eins og lög gera ráð fyrir.

Hann var áður meindýraeyðir á Norðurlandi en félag hans fór í þrot á fyrri hluta árs 2005. Eftir að lögregla fékk ábendingu fór hún í byrjun september sama ár í húsnæði þar sem fyrirtæki mannsins hafði verið og hann hafði sjálfur búið. Fann hún þar á átján byssur af ýmsu tagi á víð og dreif en ekki í byssuskáp eins og lög gera ráð fyrir.

Um tveimur mánuðum síðar tilkynnti maðurinn að að þrettán byssum og veiðiboga hefði verið stolið á heimili hans. Aðstoðaði maðurinn lögregluna við að hafa upp á langflestum vopnunum en hann var engu að síður ákærður fyrir að hafa ekki gengið nógu tryggilega frá þeim.

Í dómi Hæstaréttar kemur fram að þegar litið hafi til þess að vopnin voru tekin í innbroti á heimili mannsins, að hann hefði sérstaka geymslu fyrir vopnin þó að hún væri ekki fullnægjandi, að hann virtist hafa átt stærstan þátt í að lögreglu tókst að upplýsa málið og endurheimta vopnin, og að gögn lágu fyrir um að maðurinn hefði endurbætt aðstöðu á heimili sínu í samráði við lögreglu, þótti rétt að fresta ákvörðun refsingar hans skilorðsbundið í tvö ár.

Maðurinn hafði hlotið tveggja mánaða dóm í héraði fyrir brot sín. Með þeim dómi voru vopnin gerð upptæk en Hæstiréttur felldi þá ákvörðun úr gildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×