Innlent

Fimm ára fangelsi fyrir manndrápstilraun í Keflavík

Hæstiréttur dæmdi í dag Robert Olaf Rihter, pólskan ríkisborgara, í fimm ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps í Keflavík í nóvember í fyrra.

Honum var gefið að sök að hafa slegið annan mann ítrekað með brotinni glerflösku í höfuð, háls og víðar í líkamann, með þeim afleiðingum að hann fékk mar á augnknetti og augntóftarvefjum, yfirborðsáverka á brjóstkassa, öxl og upphandlegg og djúp sár í gegnum hálsvöðva.

Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, sagði að við atlögu Roberts hafi fórnarlambið meðal annars hlotið svöðusár á hálsi en samkvæmt vottorði læknis og framburði hans fyrir dómi var atlagan lífshættuleg og réði hending því að ekki hlaust bani af.

Óljóst væri hvað Roberti gekk til verksins en honum hljóti að hafa verið ljóst að mannsbani gæti hlotist af árásinni. Var hann því dæmdur í fimm ára fangelsi og dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu nærri 800 þúsund krónur í bætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×