Erlent

Hermenn þjálfaðir með tölvuleikjum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Skjáskot úr Darwars Ambush.
Skjáskot úr Darwars Ambush. MYND/BBN.com

Bandaríkjaher hyggst verja 50 milljónum dollara í framleiðslu tölvuleikja sem ætlað er að þjálfa hermenn.

Fáum þykja það merkilegar fréttir nú á dögum að flugmenn æfi sig fyrir ýmsar aðstæður í svokölluðum flughermum sem eru ekkert annað en tölvur sem líkja eftir flugvél. En nú er svo komið að Bandaríkjaher hefur séð möguleikann á bókstaflegum stríðshermi sem er meðal annars tölvuleikurinn Darwars Ambush.

Næstu fimm árin hyggst herinn verja 50 milljónum dollara til að þróa þann leik og fleiri en hermenn spila svo leikina eins og hverja aðra drápsleiki og heyja þar marga hildina án þess að hætta lífi sínu og limum.

Með þessu læra þeir að um gáttir allar skuli skoðast og skyggnast áður en gangi fram því óvíst er að vita hvar óvinir sitja á fleti fyrir. Þessi heilræði Hávamála eru í fullu gildi og það veit ofurstinn Gary Stephens manna best en hann hefur umsjón með þróun leikjanna. Notandinn fær að reyna fyrirsát, sprengjuárásir á bílalestir og ótrúlegustu raunir án þess að enda í líkkistu.

Það er því engin furða að blaðamaður CNET-tæknivefjarins spyrji: Getum við þá ekki bara heyjað styrjaldirnar í tölvuleikjum?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×