Innlent

Hæstiréttur skilorðsbindur 22 mánaða dóm yfir síbrotamanni

Hæstiréttur Íslands dæmdi í dag karlmann í 22 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir ítrekuð brot, þar á meðal fíkniefnalagabrot, hilmingu og umferðarlagabrot. Héraðsdómur Reykjaness hafði dæmt manninn þann 30. nóvember árið 2007 í 22 mánaða óskilorðsbundið fangelsi.

Hæstiréttur skilyrti hins vegar refsinguna og segir í dómnum að við ákvörðun refsingar verði einkum litið til þess að hinn dæmdi hefði ekki áður sætt refsingu sem áhrif hefði á ákvörðun refsingar í máli þessu en jafnframt yrði að líta til þess að mikið magn sterkra fíkniefna hefði fundist í fórum mannsins. Þá hafi maðurinn lagt fram gögn fyrir Hæstarétti sem sýndu breytt heilsufarsástand hans.

Hæstiréttur segir einnig að þar sem afbrot mannsins hafi að miklu leyti tengst óreglu hafi refsing hans verið bundin því sérstaka skilyrði að hann neyti ekki á skilorðstímanum áfengis eða deyfilyfja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×