Handbolti

Keflavík lagði Hauka

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
TaKesha Watson var stigahæst hjá Keflavík í kvöld.
TaKesha Watson var stigahæst hjá Keflavík í kvöld. Mynd/E. Stefán

Keflavík er komið í úrslit í Powerade-bikarkeppni kvenna í körfubolta eftir tólf stiga sigur á Haukum í undanúrslitum.

Haukar byrjuðu betur í leiknum og komust í 14-6 forystu en Keflvíkingar skoruðu næstu átta stig í leiknum og náðu að jafna metin áður en fyrsti leikhluti kláraðist. Staðan í leikhléi var svo 28-26, Keflvíkingum í vil.

Keflvíkingar tóku svo öll völd í leiknum í þriðja leikhluta og komust í sautján stiga forystu, 57-40, fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Lokatölur voru 75-63, Keflvíkingum í vil.

TaKesha Watson var stigahæst í liði Keflavíkur með nítján stig en Ingibjörg Vilbergsdóttir skoraði þrettán og Pálína Gunnlaugsdóttir tólf.

Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 25 stig fyrir Hauka en þær Ragna Brynjarsdóttir og Slavica Dimovska voru með fjórtán hvor. Ragna tók þar að auki 20 fráköst. Fimm leikmenn komust á blað hjá Haukum í leiknum en níu hjá Keflavík.

Nú klukkan 21.00 hefst hin undanúrslitaviðureignin í Laugardalshöllinni en þá eigast við KR og Grindavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×