Upp­gjörið: FH-Afturelding 27-26 | FH-ingar tóku for­ystuna með síðasta skoti leiksins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
FH-ingar fögnuðu vel og innilega í leikslok.
FH-ingar fögnuðu vel og innilega í leikslok. Vísir/Diego

FH er með 2-1 forystu í úrslitaeinvígi Olís-deildar karla í handbolta eftir hádramatískan eins marks sigur gegn Aftureldingu í kvöld, 27-26. Símin Michael Guðjónsson reyndist hetja Hafnfirðinga.

Spennan í húsinu var áþreifanleg fyrir leik og mátti augljóslega sjá að mikið var undir. Stúkan var svo gott sem pakkfull löngu fyrir leik og Friðrik Dór hitaði mannskapinn upp.

Vísir/Diego

Lengst af í fyrri hálfleik var þetta stál í stál og lítið sem ekkert sem gat skilið liðin að. Heimamenn skoruðu fyrsta mark leiksins, en eftir það voru Mosfellingar skrefinu framar. Þrátt fyrir að hafa í tvígang þurft að leika tveimur mönnum færri og í eitt skipti þremur mönnum færri héldu gestirnir FH-ingum í skefjum og náðu mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik.

Sá var einmitt munurinn á liðunum þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja, staðan 12-15, og gátu Mosfellingar líklega helst þakkað Jovan Kukobat, markverði liðsins, fyrir forystuna. Kukobat datt í gang um miðbik fyrri hálfleiks og varði níu skot fyrir hlé, en Þorsteinn Leó Gunnarsson var markahæsti maður vallarins með sex mörk þegar flautað var til hálfleiks.

Vísir/Diego

Síðari hálfleikur bauð svo upp á sömu skemmtun og sá fyrri. FH-ingar lokuðu algjörlega á gestina fyrstu mínúturnar og það tók Mosfellinga níu mínútur og tíu sekúndur að skora sitt fyrsta mark eftir hlé.

Þrátt fyrir það voru FH-ingar ekki búnir að ná yfirgnæfandi forskoti. Þeir voru komnir einu marki yfir og Afturelding jafnaði metin í 16-16.

Gestirnir náðu svo yfirhöndinni á ný og voru hálfu skrefi framar nánast hverja einustu sekúndu það sem eftir lifði leiks. Liðin skiptust þó á að skora, en Jakob Aronsson kom Aftureldingu í tveggja marka forskot þegar rétt rúmar fimm mínútur voru til leiksloka, staðan 22-24.

Vísir/Diego

FH-ingum tókst þó að jafna og þeir náðu loks forystunni á ný þegar um hálf mínúta var eftir af leiknum. Mosfellingar stilltu upp í sína síðustu sókn og fengu mark þegar um tíu sekúndur voru eftir, en heimamenn voru öskufljótir að taka miðjuna, koma boltanum á Aron Pálmarsson sem skilaði honum á Símon Michael Guðjónsson og hann tryggði FH sigurinn á síðustu sekúndu leiksins. Ótrúleg lokamínúta og niðurstaðan varð 27-26 sigur FH sem nú leiðir einvígið 2-1.

Vísir/Diego

Atvik leiksins

Það er í raun ekki erfitt að velja atvik leiksins úr þessum leik, þrátt fyrir að mörg frábær atvik hafi vissulega átt sér stað. Sigurmark FH-inga á síðustu sekúndu leiksins þegar Símon Michael Guðjónsson tryggði sigurinn var algjört gæsahúðaraugnablik.

Stjörnur og skúrkar

Aron Pálmarsson steig heldur betur upp þegar liðið þurfti á honum að halda undir lok leiks. Hann skoraði þrjú mörk í röð á lökamínútunum og átti líklega þátt í flestum, ef ekki öllum, mörkum FH undir lokin. Símon Michael er að sjálfsögðu einnig stjarna eftir leik kvöldsins og Jovan Kukobat gerði allt sem í sínu valdi stóð í markinu til að vinna leikinn fyrir Aftureldingu.

Blær Hinriksson fær hins vegar því miður á sig skúrkastimpilinn fyrir að misnota víti á ögurstundu undir lok leiks. Að sama skapi er hægt að setja stjörnustimpil á Daníel Frey Andrésson fyrir að verja vítið.

Dómarar

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu þennan leik bara nokkuð vel. Menn fengu að fjúka miskunnarlaust út af með tveggja mínútna brottvísanir í fyrri hálfleik, en Anton og Jónas hleyptu þessu þó aldrei upp í neina vitleysu.

Stemning og umgjörð

Allt upp á tíu hjá FH-ingum þegar kemru að stemningu og umgjörð í kvöld. Mikil stemning í tjaldinu fyrir utan Kaplakrika og í anddyrinu fyrir leik. Friðrik Dór tók lagið áður en liðin voru kynnt inn á völlinn og áhorfendur í stappfullu húsinu fengu miklu meira en nóg fyrir sinn pening.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira