Handbolti

„Geggjað að sjá Símon setja hann í lokin“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sigursteinn Arndal gat leyft sér að fagna í leikslok.
Sigursteinn Arndal gat leyft sér að fagna í leikslok. Vísir/Diego

„Þetta var náttúrulega bara rosalegt,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, eftir að liðið tryggði sér eins marks sigur gegn Aftureldingu í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi Olís-deildar karla.

„Ég er bara ofboðslega ánægður með að þrátt fyrir erfiðleika í leiknum þá hélt liðið alltaf áfram að leita að lausnunum og hélt áfram að berjast og trúa. Við ætluðum að sjálfsögðu að halda hreinu í lokin, en það var líka vitað að ef við fengjum markið þá skyldum við ná þessu inn. Það var geggjað að sjá Símon setja hann í lokin.“

Þrátt fyrir urmul tækifæra til að ná yfirhöndinni í leiknum voru FH-ingar að elta nánast allan tímann. Sigursteinn segir það þó ekkert óeðlilegt.

„Þetta einvígi er bara stál í stál. Við erum nátturulega bara að mæta frábæru liði í Aftureldingu og við þurfum að hafa ofboðslega mikið fyrir okkar. Við gerðum það í dag og það var nóg til sigurs.“

Hann segir einnig að liðið hafi fengið markvörslu á réttum tíma, þrátt fyrir að heildamarkvarsla FH hafi ekki endilega verið upp á marga fiska.

„Danni tekur mikilvægt víti og það bara þetta, að halda alltaf áfram að leita að lausnum og vera ekkert að dvelja of mikið í mistökunum. Halda áfram að reyna að þvinga sinn leik fram og það er það sem við erum ánægðir með, að halda áfram.“

Þá segir hann uppskriftina að sigri í næsta leik ekki vera flókna.

„Við þurfum bara að gera það nákvæmlega sama og fyrir alla hina leikina. Við þurfum að greina þetta vel og vera gagnrýnir og hugsa vel um okkur líkamlega. Svo mætum við ásamt okkar stuðningsfólki í Mosfellsbæinn á miðvikudaginn og munum gera allt sem í okkar valdi stendur,“ sagði Sigursteinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×