Handbolti

Af­mælis­barnið klárt í slaginn eftir alls konar bras

Valur Páll Eiríksson skrifar
Björgvin Páll átti 39 ára afmæli í gær og vonast til að fagna Evróputitli í dag.
Björgvin Páll átti 39 ára afmæli í gær og vonast til að fagna Evróputitli í dag. Vísir/Hulda Margrét

Valur er 60 mínútum frá fyrsta Evróputitli í sögu íslensks handbolta. Afmælisbarn gærdagsins, Björgvin Páll Gústavsson, er eðlilega spenntur fyrir leik Vals við Olympiakos í Aþenu í dag.

Valur vann fjögurra marka sigur á Olympiakos í fyrri leiknum á Hlíðarenda síðustu helgi og leiðir því komandi í seinni úrslitaleikinn sem er klukkan 17:00 í dag. Björgvin Páll fagnaði afmæli sínu í gær og dagurinn bærilegur.

„Hann er búinn að vera góður en heitur líka. Vorum á æfingu og búnir að sitja svolítið í rútu. Það er alvöru veður hérna. Annars rólegt bara og þetta hefur verið þægilegur dagur,“ segir Björgvin Páll.

Allir eru þá klárir í slaginn í kvöld.

„Þetta leggst vel í okkur. Við erum með þessa fjögurra marka forystu en getum ekki verið að pæla mikið í því þegar flautað er til leiks. Eins og alla liðna leikina í keppninni einbeitum við okkur að því að vinna. Við erum búnir að vinna 13 leiki hingað til af þeim 13 sem við höfum spilað,“

„Við förum bara í þennan leik til að vinna hann og reyna spá sem minnst í þessum fjórum mörkum. Þau eru fljót að fara í handbolta. Við erum allavega bara vel peppaðir, allir heilir og allir klárir í bátana. Við óttumst ekkert,“ segir Björgvin Páll í samtali við Vísi.

Allskyns skipulagsvesen hefur verið á Grikkjunum sem hafa fært leikinn fram og til baka á milli keppnishalla. Valsmenn þurftu af þeim sökum að færa sig um hótel í gær.

„Við æfðum í höll númer tvö. Ekki höllinni sem leikurinn verður í. Þeir eru búnir að skipta tvisvar um höll svo við erum búnir að vera á smá flakki um Aþenu. Við vorum að skipta um hótel líka núna vegna þess að við bókuðum okkur á hótel sem var nær hinni höllinni. Þetta er búið að vera mjög áhugavert en mjög skemmtilegt fyrir okkur og fyrir leikinn sjálfan að færa þetta í þessa stóru höll sem tekur tíu til tólf þúsund manns,“ segir Björgvin Páll.

Valur og Olympiakos mætast klukkan 17:00 í dag. Leiknum verður lýst beint á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×