Handbolti

Hetjan Símon: „Helvítis léttir“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Símon skorar markið sem tryggði FH sigurinn.
Símon skorar markið sem tryggði FH sigurinn. Vísir/Diego

Símon Michael Guðjónsson reyndist hetja FH er liðið vann dramatískan eins marks sigur í þriðja leik liðsins gegn Aftureldingu í úrslitaeinvígi Olís-deildar karla í kvöld. 

Símon tryggði FH-ingum sigur með marki á seinustu sekúndu leiksins og sá þar með til þess að FH-ingar leiða nú einvígið 2-1 og eru aðeins einum sigri frá því að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

„Þetta var mjög góð tilfinning. Bara helvítis léttir,“ sagði Símon í leikslok. „Það var fínt að klára þetta, en þetta er ekki búið. Það er bara næsti leikur.“

FH-ingar þurftu að elta nánast allan leikinn, þrátt fyrir að vera í tvígang tveimur mönnum fleiri, einu sinni þremur mönnum fleiri og þó Mosfellingar hafi ekki skorað mark fyrstu níu mínútur seinni hálfleiksins.

„Þeir voru allt of segir í vörn og hann var að verja helvíti vel í markinu. Við verðum bara að skoða það fyrir næsta leik og halda áfram.“

Þá segist Símon aldrei hafa efast um sjálfan sig í lokaskoti leiksins þrátt fyrir að hafa verið búinn að klikka á tveimur vítum í leiknum.

„Það er alltaf bara næsta skot. Það þýðir ekkert að velta klikkunum of mikið fyrir sér. Það er bara áfram gakk.“

„Við þurfum svo bara að halda áfram að spila vörn og keyra á þetta til að klára þetta á miðvikudaginn. Það er eiginlega bara það eina í stöðunni,“ sagði Símon að lokum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×