Handbolti

Ómar Ingi með fjöru­tíu mörk í síðustu þremur leikjum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon hefur farið á kostum með Magdeburg að undanförnu.
Ómar Ingi Magnússon hefur farið á kostum með Magdeburg að undanförnu. getty/Marius Becker

Ómar Ingi Magnússon hefur verið funheitur með liði sínu, Magdeburg, að undanförnu og boðið upp á ótrúlega tölfræði.

Ómar Ingi skoraði hvorki fleiri né færri en sextán mörk þegar Magdeburg sigraði Leipzig, 30-28, í þýsku úrvalsdeildinni í gær.

Þetta var þriðji stórleikur Ómars Inga í röð. Í síðustu þremur deildarleikjum Magdeburg hefur hann nefnilega skorað samtals fjörutíu mörk. Og skotnýtingin er ekkert slor, eða áttatíu prósent.

Ómar Ingi skoraði sem fyrr sagði sextán mörk gegn Leipzig í gær, úr tuttugu skotum. Í leiknum þar á undan skoraði Selfyssingurinn tíu mörk úr ellefu skotum í stórsigri á Balingen, 43-29. Og þar á undan, í 27-32 sigri á Erlangen, skoraði hann fjórtán mörk úr nítján skotum. Samtals gera þetta því fjörutíu mörk úr fimmtíu skotum.

Ómar Ingi er þriðji markahæstur í þýsku úrvalsdeildinni með 231 mörk. Aðeins Manuel Zehnder hjá Eisenach (257 mörk) og Mathias Gidsel hjá Füchse Berlin (255 mörk) hafa skorað meira.

Magdeburg er nánast búið að tryggja sér þýska meistaratitilinn í annað sinn á þremur árum. Liðið er með fjögurra stiga forskot á Füchse Berlin þegar tveimur umferðum er ólokið. Magdeburg gæti unnið þrennuna en liðið er búið að vinna þýsku bikarkeppnina og er komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×