Handbolti

Bullurnar mæta með læti

Valur Páll Eiríksson skrifar
Valsarar geta unnið Evróputitil í dag.
Valsarar geta unnið Evróputitil í dag. Vísir/Hulda Margrét

Búast má við hátt í tólf þúsund manns í stúkunni þegar Valur mætir Olympiakos í síðari úrslitaleik liðanna um EHF-bikarinn í handbolta á morgun í Aþenu. Bullurnar á bandi heimamanna verða á svæðinu.

Líkt og greint var frá fyrr í morgun hefur mikið skipulagsvesen verið á Grikkjunum sem hafa fært leikinn fram og til baka milli keppnishalla. Leikið verður í stórri körfuboltahöll og bæta við sætum til að koma hátt í tólf þúsund manns að.

Bulluaðdáendur Olympiakos láta sig ekki vanta og má búast við gríðarlegri stemningu.

„Þeir tala þannig að þetta verði bara stemning. Þegar það er titill í boði mæta þessir ultras víst alltaf. Það er alvöru titill í boði núna, Evróputitill. Þeir ætla að mæta með sína hersveit en við kannski ekki með marga með okkur,“ segir Björgvin Páll.

„Þó það mæti hundrað manns sem er reyndar vel gert að það fylgi okkur svo margir hingað. Ég held að það heyrist ekki mikið í okkar fólki, það er þekkt að þeir eru mjög blóðheitir og mikil læti í aðdáendum Olympiakos,“

„Það verður virkilega spennandi og krefjandi að eiga við það. Ef við sigrum og náum góðum úrslitum við þær aðstæður eigum við skilið að vera Evrópumeistari,“ segir Björgvin Páll.

Leikur Vals og Olympiakos hefst klukkan 17:00 á morgun og verður lýst beint á Vísi .




Fleiri fréttir

Sjá meira


×