Handbolti

Ís­lendingarnir ekki meira með á leik­tíðinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elvar Örn og Arnar Freyr eru komnir í sumarfrí.
Elvar Örn og Arnar Freyr eru komnir í sumarfrí. Melsungen

Elvar Örn Jónsson og Arnar Freyr Arnarsson missa báðir af síðustu leikjum Melsungen í þýsku úrvalsdeild karla í handbolta. Um er að ræða mikið áfall fyrir félagið sem er í harðri baráttu um sæti í Evrópu á næstu leiktíð.

Félagið sendi út tilkynningu þess efnis í gær, miðvikudag. Þar segir einfaldlega að íslensku landsliðsmennirnir verði frá keppni allt til loka tímabilsins. Elvar Örn er að glíma við meiðsli á nára og hefur verið að spila í gegnum þau undanfarnar vikur.

Eru þetta sömu meiðsli og héldu honum frá landsleikjum Íslands og Eistlands fyrr í þessum mánuði. Elvar Örn hefur verið einn jafnbesti ef ekki besti leikmaður Melsungen á tímabilinu og því um mikið högg að ræða.

Arnar Freyr lék landsleikina tvo gegn Eistlandi en virðist hafa nælt sér í slæma pest og var því ekki með þegar Melsungen tapaði óvænt fyrir Wetzlar á föstudaginn var, 17. maí. Hefur sú ákvörðun verið tekin að Arnar Freyr muni ekki spila síðustu tvo leiki tímabilsins gegn Göppingen og Kiel í lokaumferðinni sem fram fer þann 2. júní næstkomandi.

Melsungen er í 5. sæti deildarinnar með 41 stig að loknum 32 leikjum. Liðið á góðan möguleika á að tryggja sér sæti í Evrópudeildinni á komandi leiktíð en töp í síðustu tveimur leikjunum gætu þýtt að lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach gætu endað í Evrópu – fari svo að þeir vinni þrjá leiki sem þeir eiga eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×