Innlent

Matarverð helst óbreytt

Verð á vörukörfu ASÍ breyttist lítið í flestum verslunum milli síðustu viku aprílmánaðar og annarri viku í maí. Mest hækkaði verð vörukörfunnar í Nóatúni, um 1,9%, í 11-11 um 1,5% og í Samkaupum-Úrval um tæpt 1%. Mest lækkaði verð körfunnar í Nettó, um 2,7%. Litlar breytingar urðu á verði vörukörfunnar í öðrum verslanarkeðjum, en þar reyndist breytingin innan við 0,5% á tímabilinu. Þetta er meðal niðurstaðna úr könnunum sem verðlagseftirlit ASÍ hefur staðið fyrir á síðustu vikum til að fylgjast með verðbreytingum.

ASÍ segir að verð vörukörfunnar hafi lækkað í öllum lágvöruverðsverslununum milli næstsíðustu og síðustu viku apríl, mest hafi lækkunin verið í Nettó, um 2,5% en minnst í Kaskó, um 0,4%. Lækkunina megi að mestum hluta rekja til lækkana á verði kjötvöru í vörukörfunni. Aðrir vöruflokkar hafi hækkað almennt. ASÍ segir að lækkunin á verði vörukörfunnar í lágvöruverðsverslunum hafi gengið að mestu leyti til baka í annarri viku maí, nema í Nettó þar sem verðið hafi nánast verið óbreytt á milli vikna.

Vörukarfa ASÍ inniheldur allar almennar mat- og drykkjarvörur, auk hreinlætis- og snyrtivara. Við samsetningu vörukörfunnar voru hafðar til hliðsjónar vogir Hagstofunnar sem notaðar eru til útreiknings á vísitölu neysluverðs. Vogirnar segja til um hversu stór hluti tilteknir vöruflokkar eru af neyslukörfu meðalheimilis. Verðbreytingar eru skoðaðar í lágvöruverðsverslunum Bónus, Krónunni, Nettó, í almennu matvöruverslununum Hagkaupum, Nóatúni og SamkaupumÚrval og Klukkubúðunum 10-11, 11-11 og Samkaupum-Strax




Fleiri fréttir

Sjá meira


×